158 hjúkrunarfræðingar á Landspítalanum hafa sagt upp störfum frá því að verkfall þeirra var bannað fyrir rúmri viku síðan. Flestar uppsagnirnar, eða 88 talsins, eru á aðgerða- og skurðlækningasviði. Frá þessu var greint í hádegisfréttum RÚV.
Alma Möller, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landspítalans, segir í samtali við RÚV að alveg ljóst sé að uppsagnirnar myndu hafa í för með sér skerta starfsemi á skurðstofum og á gjörgæsludeild, ef þær koma til framkvæmda. „Það er ekki gott núna þegar fyrir liggja biðlistar frá verkföllunum. Það verður auðvitað allri bráðaþjónustu sinnt en það eru þessar svokölluðu valaðgerðir, þeim yrði fækkað.“ Nú verður farið í að undirbúa neyðaráætlun fyrir sviðið.
189 heilbrigðisstarfsmenn hafa sagt upp á Landspítalanum undanfarna daga og viðbúið er að talan hækki í dag. Til samanburðar sögðu 254 hjúkrunarfræðingar upp störfum árið 2012 þegar hjúkrunarfræðingar deildu við spítalann um stofnanasamning.
Búið er að boða til fundar í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga og ríkisins í fyrramálið, en Ólafur G. Skúlason, formaður félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sagði við RÚV að hann teldi ríkissáttasemjara aðeins vera að uppfylla lagaskyldu sína með boðinu. Samkvæmt lögum eigi hann að boða til samningafunda ekki sjaldnar en hálfsmánaðarlega og síðasti fundur var 10. júní.