Um 18.500 manns starfa við ferðaþjónustu á Íslandi. Það eru um 9,4 prósent vinnuaflsins í maí síðastliðnum. Miðað við þróun síðustu ára, og fjölgun ferðamanna milli ára, mun starfsfólki í ferðaþjónustu fjölga enn frekar í júní, júlí og ágúst. Þegar mest lét í fyrra störfuðu um tuttugu þúsund manns við ferðaþjónustu.
Hagstofan birti í dag upplýsingar um fjölda stafsmanna og veltu í nokkrum einkennandi atvinnugreinum í ferðaþjónustu. Flestir vinna við veitingasölu og -þjónustu, eða um 7.500 manns samanborið við 7.200 í maí 2014. Um 4.300 starfa við rekstur gististaða og um 2.800 við farþegaflutninga með flugi.
Fjöldi starfsmanna í ferðaþjónustu á Íslandi sýnir ágætlega þær miklu árstíðarsveiflur sem eru á komu ferðamanna til landsins og umsvif í atvinnulífinu vegna komu þeirra. Línuritið sýnir fjölda starfsmanna í hverjum mánuði frá janúar 2013 til maí 2015. Á síðasta ári voru starfsmenn fæstir um 14.000 talsins, í janúar, en flestir í ágúst, þá um tuttugu þúsund.