Samkeppniseftirlitið hefur komist að þeirri niðurstöðu að Já hf. hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína á markaði fyrir rekstur og heildsöluaðgang að símanúmeragagnagrunni fyrirtækisins. Eftirlitið hefur lagt 50 milljóna króna stjórnvaldssekt á Já vegna þessa, en upplýsingaveitan 1800 kærði Já til Samkeppniseftirlitsins vegna meintra brota fyrir þremur árum.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já, segir fyrirtækið forviða á niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins, og ákvörðun þess sé einsdæmi í Evrópu og fyrirtækinu óskiljanleg. Já hf. hefur tilkynnt að niðurstöðunni verði áfrýjað til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.
Andri Árnason, forstjóri 1800, segir fyrirhugaða áfrýjun Já ekki hafa komið á óvart. "Já hefur sagt nei aftur og aftur í þessu máli, sem nú er búið að taka þrjú ár. Fyrirtækið hefur gert allt sem það getur til að tefja málið, enda hagsmunir fyrirtækisins að það tefjist sem lengst. Fyrirtækið mun áfram reyna að hindra framgang ákvörðunarinnar eins lengi og það getur, á kostnað neytenda," segir Andri í samtali við Kjarnann.
Að loknu áfrýjunarferli málsins hyggst 1800 krefja Já hf. um tugi milljóna króna í skaðabætur. "Í dag vitum við ekki hvað skaðabótakrafan mun hljóða upp á, en við teljum að á okkur hafi verið gróflega brotið með yfirverðlagningu Já á sínum tíma, og það hafi valdið okkur miklum skaða. Núna ætlum við leggjast yfir málið með endurskoðanda okkar og lögfræðingi til að meta tjón okkar vegna þessa."