Hátíð fer að höndum ein, hana vér allir prýðum…
Í þetta sinn er erindi Jóhannesar úr Kötlum reyndar raulað við nýstárlega raftónlist á hæsta styrk í stað þjóðlagsins klassíska – og hátíðin er Iceland Airwaves, ekki jólin.
Airwaves þarf auðvitað ekki að kynna, hún hefur haldið fána nýrrar og spennandi tónlistar á lofti síðan ‘99 og er hvergi nærri hætt. Skoðum dagskrána í ár aðeins betur.
Júníus Meyvant lét á Iceland Airwaves hátíðinni í gærkvöldi. Hann er einn þeirra íslensku tónlistarmanna sem miklar vonir eru bundnar við að fangi athygli út fyrir landssteinanna á hátíðinni í ár.
Íslenskt
Það er ekkert leyndarmál að Íslendingar státa af frábærum tónlistarmönnum, sumir myndu eflaust ganga svo langt að segja að við séum með bestu tónlistarmenn í heimi “per capita” (en ekki hvað). Þar sem vonlaust er að þrengja hópinn í stuttri grein skulum við frekar beina sjónunum að nokkrum spennandi sveitum sem aldrei hafa spilað á Airwaves áður og vert er að kanna nánar;
Ambátt
Meðlimir sveitarinnar hafa áður gert garðinn frægan í raftónlistarsenunni á Íslandi með t.d. Beatmakin Troopa og Stereo Hypnosis
Dream Wife
Íslensk/bresk popp-gruggsveit sem byrjaði sem skólaverkefni í listaháskóla í Brighton.
Geislar
Sannkölluð “súpergrúppa”, en meðlimir hennar hafa verið með puttana í mörgum af betri hljómsveitum landsins.
Júníus Meyvant
Á hraðri uppleið þessa dagana með auknum vinsældum lagsins “Color Decay” og væntanlegri plötu.
Kælan Mikla
Pönk og ljóðlist bindast órjúfanlegum böndum í flutningi hinna eitursvölu KM stelpna.
Lily the Kid
Fyrrum söngkona Bloodgroup kemur tvíefld úr langri tónlistarpásu sem Lily the Kid ásamt bróður sínum úr sömu sveit með silkimjúka raftóna í farteskinu.
Óbó
Hann hefur spilað með flestum – Emilíönu Torrini, Sigur Rós, múm o.fl. - en fæstir hafa heyrt hans eigin tónlist enn sem komið er.
Tófa
Ný íslensk pönk-sveit sem samanstendur af meðlimum sveita á borð við For a Minor Reflection og Rökkurró.
Uni Stefson
Forsprakki Retro Stefson stígur fram á sjónarsviðið sóló í fyrsta sinn með ljúfsárum lögum sem sýna aðra hlið á tónlistarmanninum.
Young Karin
Dúóið Young Karin bjóða upp á sykursætt rafpopp með grípandi laglínum.
Gestir hátíðarinnar í dag verða um níu þúsund. Það er tæplega eitt þúsund fleiri en í fyrra.
Erlent
Eitthvað er um stór nöfn á hátíðinni í ár sem vert er að sjá, til að mynda Íslandsvinirnir Flaming Lips og Caribou auk The War On Drugs, Future Islands og How To Dress Well - að ógleymdum allra síðustu tónleikum The Knife!
Sjarmi Airwaves felst þó óneitanlega í því að kynnast nýjum tónlistarmönnum sem eru við það að springa út, eins og þessum;
East India Youth
Einsmannsband þetta skaust upp á sjónarsviðið eftir að hafa afhent réttum aðila rétta tónlist á réttum tíma.
Ibibio Sound Machine
Samsuða margbreytilegra tónlistarstefna mætist hér og ekki er annað hægt en að taka nokkur dansspor.
Jaakko Eino Kalevi
Sækadelískir og tilraunakenndir tónar matreiddir á afbragðs hátt.
Jessy Lanza
Ein listamanna hinnar virtu Hyperdub útgáfu sem gaf út frábæra plötu í fyrra.
Kelela
Bandaríska RnB nýstirnið hefur getið sér gott orð að undanförnu.
Perfect Pussy
Þessi nýstárlega pönksveit gaf út frábæra plötu á árinu.
Son Lux
Hefur unnið með listamönnum sem eru eins mismunandi og þeir eru margir og ber hljóðheimur hans þess glöggt vitni.
Stara Rzeka
Áhugaverð sveit sem blandar saman melódíum og óhljóðum svo úr verður hin fínasti kokteill.
Thus Owls
Oft hefur verið sagt að vatnið í bæði Kanada og Svíþjóð sé gætt einhverjum sérstökum tónlistartöfrum – mýta sem deyr ekki með þessari sveit.
Tremoro Tarantura
Norðmenn eru sérfræðingar í dekkri hliðum tónlistar og er Tremoro Tarantura engin undantekning.
Gleðilega hátíð!