Íslendingar keyptu skyndibita frá Subway, Domino´s, KFC og Foodco, sem á og rekur sjö vörumerki og 20 veitingastaði á Íslandi, fyrir 10,9 milljarða króna á árinu 2014. Þetta kemur fram í ársreikningum þeirra. Þessir fjórir aðilar eru stærstu skyndibitakeðjur landsins.
Íslensk heimili eru um 125 þúsund talsins. Ef gert er ráð fyrir því að þau hafi keypt þennan mat hefur hvert íslenskt heimili eytt um 87.200 krónum í skyndibita frá veitingastöðum þessarra fjögurra fyrirtækja á árinu 2014. Hluti skyndibitans hefur þó verið keyptur af erlendum ferðamönnum. Þetta kemur fram í ársreikningum fyrirtækjanna, en öll skiluðu umtalsverðum hagnaði á hverju ári.
Það er því mjög arðvænlegt að vera í skyndibitageiranum á Íslandi í dag.
Foodco hagnað mikið á undanförnum árum
Skyndibitaveldið Foodco hagnaðist um 144 milljónir króna í fyrra. Alls nemur hagnaður fyrirtækisins frá árinu 2009 um einum og hálfum milljarði króna. Foodco á og rekur sjö vörumerki í veitingageiranum. Þau eru Aktu Taktu, Eldsmiðjan, Saffran, American Style, Pítan, Greifinn á Akureyri og Roadhouse, sem fyrirtækið keypti í maí síðastliðnum. Yfir 400 manns starfa hjá Foodco sem á alls 20 veitingastaði.
Velta fyrirtækisins var rúmlega 3,4 milljarðar króna í fyrra sem gerir það að söluhæsta skyndibitarisa landsins.
Samkvæmt ársreikningi Foodco fyrir árið 2014 dróst hagnaður fyrirtækisins saman á milli ára, en hann nam 402 milljónum króna á árinu 2013. Þar munaði þó mest um að lán fyrirtækisins voru endurútreiknuð sem gerði það að verkum að 377 milljónir króna voru tekjufærðir. Hagnaður Foodco fyrir fjármagnskostnað, skatta og afskriftir (EBITDA) jókst á milli ára.
Hann var 244 milljónir árið 2013 en 377 milljónir króna í fyrra. Á sama tíma hefur fyrirtækinu gengið vel að greiða af skuldum sínum. Heildarskuldir þess lækkuðu um 90 milljónir króna í fyrra og stöðu í 593 milljónum króna í lok árs 2014.
Eigendur Foodco eru fjórir. Þórarinn Ragnarsson á 40 prósent hlut, félög í eigu sona hans, þeirra Jóhanns Arnar Þórarinssonar (40 prósent) og Óttars Þórarinssonar (tíu prósent) eiga helmingshlut og félag í eigu Bjarna Stefáns Gunnarssonar á tíu prósent.
Vinsælasti skyndbiti landsins
Pizza-Pizza ehf., móðurfélag Domino's á Íslandi sem rekur 19 pítsustaði á landinu öllu, hagnaðist um 157 milljónir króna á árinu 2014. Árið áður nam hagnaðurinn 226 milljónum króna og árið 2012 var hagnaðurinn 111 milljónir króna. Velta Domino's í fyrra var samtals 3,3 milljarðar króna. Þótt heildarvelta Foodco sé aðeins meiri en velta móðurfélags Domino's er morgunljóst að pizzustaðurinn er vinsælasti skyndibiti landsins, enda samanstendur velta Foodco af sölu átta mismunandi vörumerkja.
Í mars síðastliðnum keypti framtakssjóðurinn EDDA, sem er rekinn af Virðingu en er í eigu lífeyrissjóða og annarra fagfjárfesta, fjórðurshlut í Domino's á Íslandi. Aðrir eigendur eru Birgir Þ. Bieltvedt stjórnarformaður félagsins og eiginkona hans Eygló Björk Kjartansdóttir, sem einnig situr í stjórn móðurfélagins, Högni Sigurðsson, Birgir Ö. Birgisson framkvæmdastjóri og nokkrir aðrir lykilstjórnendur Domino‘s á Íslandi.
Ákveðið var að ráðast í sölu á hlutnum til að fjármagna útrás í Noregi og Svíþjóð.
Íslendingar sólgnir í kjúkling og báta
KFC ehf. rekur átta veitingarstaði víðsvegar um landið. Hagnaður KFC í fyrra var tæplega 121 milljónir króna og samanlagður hagnaður fyrirtækisins á síðustu fjórum árum er 312 milljónir króna. Alls nam velta KFC um 2,4 milljörðum króna á árinu 2014.Eini eigandi félagsins er framkvæmdastjóri þess, Helgi Vilhjálmsson, sem oftast er kenndur við Góu.
Rekstrarfélag Subway á Íslandi heitir Stjarnan ehf. Alls rekur félagið 23 slíka staði víðsvegar um landið. Það hagnaðist um 174 milljónir króna í fyrra, en hluti hans var vegna hagnaðar fasteignafélags í eigum Stjörnunnar. Í ársreikningi félagsins kemur fram að velta vegna reksturs Subway staðanna hafi verið um 1,8 milljarðar króna í fyrra.