Í lok september 2015 bjuggu 331.310 manns á Íslandi, þar af 166.590 karlar og 164.720 konur. Landsmönnum fjölgaði um 700 frá því þremur mánuðum áður. Á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 212.820 manns en 118.490 utan þess.
Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar í dag. Á þriðja ársfjórðungi 2015, þ.e. í júlí, ágúst og september, fæddust 1.130 börn en 530 einstaklingar létust. Á sama tíma fluttust 80 einstaklingar til landsins umfram brottflutta. Brottfluttir einstaklingar með íslenskt ríkisfang voru 640 umfram aðflutta, en aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 720 fleiri en þeir sem fluttust frá landinu. Fleiri konur en karlar fluttust frá landinu.
Fram kemur í frétt Hagstofunnar að Danmörk var helsti áfangastaður brottfluttra íslenskra ríkisborgara. Þangað fluttust 550 manns á 3. ársfjórðungi. Til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar fluttust 1.290 íslenskir ríkisborgarar af 1.640 alls. Af þeim 600 erlendu ríkisborgurum sem fluttust frá landinu fóru flestir til Póllands, eða 130 manns.
Flestir aðfluttir íslenskir ríkisborgarar komu frá Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Frá Danmörku komu 270 manns, frá Noregi 250 og Svíþjóð 220. Samtals gera það 730 manns af 1.010. Pólland var upprunaland flestra erlendra ríkisborgara en þaðan fluttust 370 til landsins af alls 1.320 erlendum innflytjendum. Bandaríkin komu næst, en þaðan fluttust 80 erlendir ríkisborgarar til landsins. Í lok þriðja ársfjórðungs bjuggu 25.630 erlendir ríkisborgarar á Íslandi.