Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW Air, segir að ekki sé þörf fyrir fleiri fjárfesta í eigendahóp félagsins vegna þeirra áforma sem félagið hefur nú kynnt, um að fljúga beint frá Íslandi til Los Angeles og San Francisco. Þetta kemur fram í viðtali við Skúla á vefsíðunni Túristi.is. „Það er engin þörf á því að fá inn nýja fjárfesta því það gengur einfaldlega það vel hjá okkur. Í október vorum við til dæmis með 92 prósent sætanýtingu á öllum okkar stöðum sem er ótrúlega hátt hlutfall í október. En ef það kæmu inn fleiri fjárfestar þá gæti ég ekki leyft mér að hlaupa eins hratt og ég geri í dag,“ sagði Skúli í viðtalinu.
Þrjár Airbus 330 breiðþotur sem WOW Air ætlar að leigja til þess að fljúga með farþega sína til Los Angeles og San Francisco á næsta ári verða einnig notaðar til þess að auka sætaframboð til Washington og Boston, að því er Skúli segir. Hann segir að til þess að ná hámarks nýtingu á nýju flugvélunum hafi þurft að bæta við tveimur áfangastöðum á vesturströndinni, og staðirnir fyrrnefndu í Kaliforníu urðu fyrir valinu.
WOW Air tapaði um 560 milljónum króna í fyrra, og nam tapið 330 milljónum árið 2013. Samtals hefur félagið því tapað 890 milljónum króna á síðustu tveimur árum. Skúli segir samtali við RÚV í dag, að þetta sé eðlilegt á uppbyggingartíma hjá félaginu. Lággjaldamódelið í flugrekstri hafi sannað sig um allan heim, og að gott gengi að undanförnu, meðal annas góð sætanýting og mikil tekjuaukning, gefi góð fyrirheit um framhaldið.