Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handbolta, nær eyrum þjóðarinnar þegar hann tjáir sig um málefni íþróttahreyfingarinnar. Frábær íþróttamaður en kannski ekki síður frábær fyrirmynd yngri kynslóðarinnar.
Hann var í viðtali við Ívar Benediktsson, þann reynslumikla og góða íþróttablaðamann Morgunblaðsins, í gær þar sem hann gerði grein fyrir áhyggjum sínum af aðstöðuleysi landsliða karla og kvenna hér á landi. Íslensku landsliðin þurfa oftar en ekki að betla tíma frá íþróttafélögum á höfuðborgarsvæðinu þegar þau koma saman til æfinga, og sjaldan er mögulegt að sinna undirbúningi í Laugardalshöll. Auk þess sem hún er ekki lögleg lengur í landsleikjum, miðað við alþjóðlegar reglur, að því er kom fram í máli Guðjóns Vals.
Hann var í viðtali við Ívar Benediktsson, þann reynslumikla og góða íþróttablaðamann Morgunblaðsins, í gær þar sem hann gerði grein fyrir áhyggjum sínum af aðstöðuleysi landsliða karla og kvenna hér á landi. Íslensku landsliðin þurfa oftar en ekki að betla tíma frá íþróttafélögum á höfuðborgarsvæðinu þegar þau koma saman til æfinga, og sjaldan er mögulegt að sinna undirbúningi í Laugardalshöll. Auk þess sem hún er ekki lögleg lengur í landsleikjum, miðað við alþjóðlegar reglur, að því er kom fram í máli Guðjóns Vals.
Full ástæða er til þess að taka þessi mál til endurskoðunar, og finna á þessu skynsamlegar lausnir. Reykjavíkurborg og ríkið þurfa að koma að því, og ekki væri verra ef styrktaraðilar legðu sitt af mörkum sömuleiðis. Tíminn vinnur ekki með neinum, þegar að þessu kemur. Aðalskipulag Reykjavíkurborgar gerir til dæmis ráð fyrir að mikil fjölgun verði í nærumhverfi Laugardalshallar á næstu árum, og verða vafalítið enn fleiri á æfingum í höllinni á næstu árum, ef ekki kemur til frekari uppbyggingar á aðstöðu og stækkun skóla.