Á hluthafafundi Íslenskra verðbréfa í gær, sem haldinn var þann 4. nóvember síðastliðinn, var ný stjórn Íslenskra verðbréfa kjörin. Fjölgað var úr þremur í fimm í stjórn félagsins. Þrír nýir stjórnarmenn settust í stjórn, þau Anna Guðmundsdóttir, Eiríkur S. Jóhannsson og Oddgeir Ágúst Ottesen. Þá sitja Heiðrún Jónsdóttir og Steingrímur Birgisson áfram í stjórn félagsins en Heiðrún er formaður stjórnar.
Í varastjórn voru kjörnir þeir Árni Magnússon og Þorsteinn Hlynur Jónsson.
Anna er fædd 1967. Hún er Cand. oecon frá Háskóla Íslands 1990. Hún hefur starfað sem fjármálastjóri Gjögurs hf. frá 2008. Eríkur er fæddur 1968. Hann er með B.S. -gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands frá 1991. Eiríkur tók við sem forstjóri Slippsins á árinu 2015. Þá er Eiríkur stjórnarformaður Kaldbaks ehf.
Oddgeir er fæddur 1973. Hann er með doktorsgráðu í hagfræði frá University of California, Santa Barbara. Oddgeir hefur starfað sem framkvæmdastjóri Integra ráðgjafar frá árinu 2014.
Í varastjórn voru kjörnir þeir Árni Magnússon og Þorsteinn Hlynur Jónsson.
Hópur fjárfesta, auk lykilstarfsmanna, gekk frá kaupum á yfir 90 prósent hlutafjár í Íslenskum verðbréfum hf. Hluthafar í félaginu eru rúmlega 20 og fer enginn hluthafi með yfir tíu prósent eignarhlut, en rætur eigendanna eru að mesta á Norðurlandi.
Meðal hluthafa eru Ursus Maritimus Investors sem er félag í eigu Sigurðar Arngrímssonar, Kaldbakur ehf., Lífeyrissjóður starfsmanna Akureyrarbæjar, KEA svf., Stapi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga, Festa lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja, Kjálkanes ehf. og Salvus ehf. í eigu Sigþórs Jónssonar framkvæmdastjóra ÍV.
Stefna nýrra eigenda er að styðja félagið til áframhaldandi vaxtar, eins og sagði í tilkynningu um eigendaskiptin.