Ætla má að áhrif skuldaaðgerða ríkisstjórnarinnar megi merkja á fasteignamarkaði á næstunni. Samkvæmt stórkaupavísitölu Gallups hefur hlutfall heimila sem sjá fram á húsnæðiskaup á næstu tólf mánuðum ekki verið hærra síðan síðla árs 2007.
Þetta kemur fram í nýjasta hefti Peningamála, ársfjórðungslegri skýrslu Seðlabankans, sem birt var síðastliðinn miðvikudag. Í umfjöllun bankans segir að hækkun fasteignaverðs og lækkun skulda auðveldi heimilum að ráðast í fjárfestingu sem þessa. Auk þess hafi einstaka lánastofnanir aukið aðgengi að lánsfé með hækkun veðhlutfalla og lækkun vaxta og lántökugjalda.
Mikið hefur verið fjallað um hækkun íbúðaverðs en frá áramótum hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um rúm 9 prósent frá sama tíma í fyrra. Seðlabankinn gerir ráð fyrir að verð fari áfram hækkandi. Það endurspegli mikinn vöxt undirliggjandi efnahagsstærða eins og hækkun ráðstöfunartekna og bætta eiginfjárstöðu heimila.
Þá er bent á að aðgengi heimila að lánsfé hafi aukist og útlánsvextir hluta lífeyrissjóða lækkað. Eins og Kjarninn greindi frá þá hóf Lífeyrissjóður verslunarmanna að bjóða langódýrustu húsnæðislánakjör til sjóðsfélaga í október síðastliðnum. Í umfjöllun Seðlabankans segir að vextirnir séu nú um hálfu prósenti lægri en sambærilegir vextir viðskiptabankanna.
„Þá hafa einhverjir sjóðir jafnframt hækkað veðhlutföll í 75% og lækkað lántökukostnað nýrra útlána. Þrátt fyrir að vextir viðskiptabankanna hafi ekki lækkað með sama hætti en sem komið er gefur nýleg vaxtalækkun eins af stóru bönkunum til kynna að það gæti breyst,“ segir í umfjöllun í Peningamálum. Er þar vísað til vaxtalækkana Arion banka í kjölfar tilboðs lífeyrissjóðsins.