Fjármálafyrirtækin Virðing og Arctica Finance vinna nú hvor í sínu lagi að því að mynda fjárfestahópa sem hafa burði til að kaupa 87 prósent hlut slitabús Kaupþings í Arion banka. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag. Í frétt blaðsins segir að bæði félögin leggi áherslu á að fá stærstu lífeyrissjóði landsins að málinu. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins þá halda lífeyrissjóðirnir mjög að sér höndum en málið hefur fengið umfjöllun í stjórnum einhverra þeirra á síðustu dögum.
Nálgun Virðingar og Arctica Finance er sögð sú sama, þ.e. að fagfjárfestar kaupa Arion banka og í kjölfarið verði almenningi boðið að fjárfesta í gegnum skráningu á hlutabréfamarkað á næsta ári. Arctica hyggst fjárfesta sjálft í bankanum en Virðing einskorðar aðkomu sína að ráðgjöf. Síðarnefnda fyrirtæki hefur þegar fengið til liðs við sig tvo menn til að leiða hóp einkafjárfesta, þá Sigurbjörn Þorkelsson bankamann og Hreggvið Jónsson, aðaleiganda Veritas og formann stjórnar Viðskiptaráðs Íslands.
Í frétt Morgunblaðsins segir að talið sé ólíklegt að bankinn verði seldur á bókfærðu eigin fé, sem nemur um 168 milljörðum króna. Líklegra sé að söluverð verði á bilinu 0,6 til 0,8 sinnum eigið fé. Það þýðir að söluandvirði hlutarins gæti numið á bilinu 88 til 117 milljarðar króna.