Hlutfall þeirra sem leigðu húsnæði sitt jókst úr 12,9 prósentum árið 2008 í 20,8 prósent árið 2014, en mikil fjölgun varð á leigumarkaði í kjölfar hrunsins. Árið 2008 leigðu 6,8 prósent íbúa á almennum markaði og 6,1 prósent eftir öðrum leiðum á borð við félagsbústaði, stúdentagarða eða á lækkuðu verði af nákomnum. Árið 2014 leigðu 12,4 prósent íbúa á almennum markaði og 8,3 prósent eftir öðrum leiðum.
Hagstofan greinir frá þróun mála í dag í nýrri skýrslu um stöðuna á húsnæðismarkaði árið 2014. Rannsókn Hagstofunnar, sem er hluti af evrópsku lífskjararannsókninni, sýnir að staðan á húsnæðismarkaði tengist bæði aldri fólks og tekjum. Þannig er fólk með lágar tekjur líklegra til að búa í leiguhúsnæði. Um 37,4 prósent fólks í lægsta fimmtungi tekjudreifingarinnar bjuggu í leiguhúsnæði á síðasta ári en aðeins 9,3 prósent í hæsta tekjubilinu.
Í fyrra leigði 35,5 prósent fólks á aldrinum 25-35 ára húsnæði sitt en 7,9 prósent bjuggu í skuldlausu eigin húsnæði. Á sama tíma bjuggu 9,7 prósent fólks á aldrinum 65 ára og eldri í leiguhúsnæði en 48,2 prósent í skuldlausu eigin húsnæði. Þá sýnir rannsóknin að heimili einstæðra foreldra og einhleypra og barnlausra einstaklinga undir 65 ára aldri voru líklegri til að búa í leiguhúsnæði. Innflytjendur voru einnig líklegri en innfæddir til að leigja húsnæði sem það bjó í, 41,1 prósent þeirra sem fæddust erlendist bjuggu í leiguhúsnæði samanborið við 17,8 prósent þeirra sem fæddust á Íslandi.
Þrátt fyrir fjölgun á leigumarkaði frá 2008 þá var Ísland með lægsta hlutfall íbúa í leiguhúsnæði af Norðurlöndunum 2014 og næsthæsta hlutfallið sem bjó í skuldlausu eigin húsnæði.