Miðstjórn Alþýðusambands Íslands sakar Samtök atvinnulífsins um að ganga erinda Rio Tinto og að halda starfsmönnum álversins í gíslingu í tengslum við kjaradeilu starfsfólksins í álverinu í Straumsvík. „Þannig er komið í veg fyrir að þeim verði boðin sama launahækkun og flestir launamenn á íslenskum vinnumarkaði hafa fengið.“
Harðar kjaradeilur starfsfólksins í álverinu við vinnuveitendur sína hafa nú staðið í langan tíma, en kjarasamningur rann út fyrir tæpum ellefu mánuðum.
Í yfirlýsingu frá miðstjórn ASÍ er þess krafist að SA beiti sér fyrir því að gengið verði frá kjarasamningi á milli álversins í Straumsvík og verkalýðsfélaga sem starfsfólkið þar er í.
„Síðustu mánuði hefur verið lögð mikil vinna í að móta nýtt íslenskt samningalíkan að norrænni fyrirmynd. Staðan sem upp er komin í Straumsvík og framganga SA í málinu er afleitt innlegg í það samkomulag sem aðilar á vinnumarkaði skrifuðu undir fyrir fáeinum dögum,“ segir miðstjórnin. Ef Samtök atvinnulífins fari ekki að starfa í anda þess samkomulags og ganga frá kjarasamningi verði trúverðugleiki SA „farinn fyrir lítið“ og samkomulag um ný og betri vinnubrögð á íslenskum vinnumarkaði komið í „fullkomið uppnám.“
Lýstu yfir stuðningi við starfsfólkið
Fyrir um mánuði síðan fjölluðu bæði Landssamband íslenzkra verzlunarmanna og Starfsgreinasamband Íslands yfir stuðningi við starfsfólkið í kjaradeilu sinni. Skorað hefur verið á Rio Tinto að ljúka gerð kjarasamninga sem allra fyrst án þess að setja störf almennra starfsmanna í verktöku, en fyrirtækið hefur farið fram á að fá meiri heimildir til að auka verktakastarfsemi.
Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi, hefur sent starfsfólki tvö bréf þar sem slæmri stöðu fyrirtækisins er lýst. „Staða á mörkuðum er slæm og hefur versnað verulega frá áramótum. Heimsmarkaðsverð á áli hefur lækkað mikið og það á einnig við um markaðsuppbætur, sem eru hluti af verðinu sem við fáum fyrir álið. Eftirspurn er langt undir áætlunum. Samanlögð áhrif þessa á sölutekjur ISAL eru harkaleg. Og þar sem orkuverð ISAL er ekki lengur tengt við álverð þolum við lágt álverð miklu verr en áður,“ sagði hún meðal annars í öðru bréfinu.
Rannveig hefur líka sagt að álverið í Straumsvík búi við mestu fjötra allra fyrirtækja á Íslandi þegar kemur að verktöku. Gylfi Ingvarsson, talsmaður verkalýðsfélaganna í Straumsvík hefur hins vegar sagt að um áróður sé að ræða.