Forsætisráðuneytið hefur keypt þjónustu vegna sérfræði-, ráðgjafar- og kynningarstarfa fyrir tæplega 90 milljónir króna í fyrra og það sem af er þessu ári. Þetta kemur fram í svari Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra við fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri-grænna. Katrín hefur lagt fram fyrirspurnir til allra ráðherra um útgjöld þeirra til þessara mála.
Í svari Sigmundar Davíðs kemur ekki fram hversu háar upphæðir voru greiddar hverjum og einum, en þar kemur fram að kostnaður vegna kaupa á sérfræðiþjónustu eins og ráðuneytið túlkar hana hafi numið tæplega 62,8 milljónum króna í fyrra. Það sem af er þessu ári hefur hins vegar verið keypt þjónusta fyrir lægri upphæð, eða 26,4 milljónir til loka októbermánaðar.
Áberandi á listanum yfir keypta þjónustu eru verkefni vegna verðtryggingamála og vinna fyrir stjórnarskrárnefnd. Hér má lesa listann í heild sinni.
Fjögur ráðuneyti keypt fyrir 184 milljónir króna
Sem fyrr segir hefur Katrín óskað eftir þessum upplýsingum frá öllum ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Fjórir hafa hingað til skilað svörum: Sigmundur, Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra.
Samtals hafa því þjónustukaup ráðuneyta þessara fjögurra ráðherra numið 184 milljónum króna frá upphafi síðasta árs.
Ráðuneyti Ragnheiðar Elínar hefur varið næstmestum peningum í ráðgjöf, á eftir forsætisráðuneytinu. 46,7 milljónir króna hafa farið í ráðgjöf undanfarin tvö ár, eins og sjá má hér. Ráðuneyti Sigrúnar Magnúsdóttur hefur hins vegar varið lægstum upphæðum í ráðgjöf, eða tæplega 12,4 milljónum króna.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur keypt ráðgjöf fyrir rúmar 35 milljónir króna, og þar af fóru tæpar fimmtán milljónir í ráðgjöf til þriggja lögmannsstofa vegna frumvarps um stjórn fiskveiða. Ráðgjöf vegna frumvarps um veiðigjöld er líka áberandi á lista Sigurðar Inga.