Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, er stórorð í garð Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á Facebook-síðu sinni í dag. Hún segir Bjarna senda þeim sem detta út úr námi en vilji svo ljúka því síðar „stórt fokkmerki“ með málflutningi sínum.
Bjarni átti orðastað við Oddnýju Harðardóttur, samflokkskonu Sigríðar Ingibjargar, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á þingi í morgun. Þar var til umfjöllunar framhaldsskólanám, og fjöldatakmarkanir sem settar hafa verið á fólk yfir 25 ára aldri. Sigríður Ingibjörg segist hafa „skömm á þessari mannfjandsamlegu stefnu,“ sem stjórnvöld stundi.
Bjarni sagði á þingi í morgun að grunnhugsunin á bak við breytta stefnu stjórnvalda sé sú að það hafi skort fjármagn á bak við hvern nemanda í framhaldsskólakerfinu. Auk þess hafi námsframvinda verið ófullnægjandi þegar Ísland sé borið saman við önnur ríki. Það hafi tekið lengri tíma að koma nemendum til háskólanáms og með því að forgangsraða fólki yfir 25 ára aldri síðast sé verið að bregðast við þessu. Fólk yfir 25 ára aldri hefði önnur úrræði, eins og frumgreinadeildir, til þess að ljúka stúdentsprófi.
Oddný sagði það arfavitlaust bæði faglega og fjárhagslega að meina nemendum aðgang að opinberum framhaldsskólum. Það leiði til þess að færri fari í frekara nám, og að einkum bitni þessar breytingar á fólki á landsbyggðinni. Komið hefur fram að nemendum í framhaldsskólanámi hafi fækkað um 700 milli ára.