Ráðherraráð Evrópusambandsins samþykkti á fundi sínum í dag tilmæli ti ríkja sem eiga beina eða óbeina aðild að Schengen samstarfinu, um bakgrunnsrannsókn fari fram á öllum sem ferð eiga um ytri landamæri Schengen. Þá var einnig rætt um frekari breytingar á samstarfinu, að því er segir í frétt mbl.is.
Í fréttinni er einnig rætt við Ólöfu Nordal, innanríkisráðherra, sem sat fundinn. Hún sagði „þungt hljóð“ í fólki og rík krafa hefði komið fram um aðgerðir, enda hryðjuverkaógn viðvarandi í álfunni eftir árásirnar í París fyrir viku, þegar 129 létust og mörg hundruð slösuðust. „Það var rætt um að aðgerðir mættu ekki bíða lengur, ná þyrfti tökum á ytri landamærunum. Til þess þyrfti aðgerðir sem hafi raunveruleg áhrif svo Schengen samstarfið héldi, og landamæri þess, svo ekki þyrfti að koma til þess að ríki reistu upp landamæri sín innan Schengen,“ sagði Ólöf í viðtali við mbl.is.
Þá kom fram á fundinum ríkur stuðningur við Frakka, sem nú eiga um sárt að binda. Neyðarstigi hefur verið lýst yfir í landinu og var það framlengt til þriggja mánaða í gær, þar sem viðvarandi hætta er talin á því að hryðjuverk verði framin á nýjan leik.