Ingibjörg Kristjánsdóttir, eiginkona Ólafs Ólafssonar, segir Pál Winkel, forstjóra Fangelsismálastofnunar, brjóta á réttindum fanga eins og eiginmanns hennar. Hún sakar hann einnig um að tjá sig opinberlega um einkamál útrásarvíkinga sem sitja í fangelsinu að Kvíabryggju og fara með ósannindi um þá. Þetta segir hún í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag.
„Framganga Páls er sérlega ósmekkleg í ljósi þess að hann veit manna best að frelsissviptingin ein og sér er mönnum nógu erfið þó mannréttindi þeirra séu ekki brotin samhliða“ segir Ingibjörg. Þetta hafi verið gert á kostnað skjólstæðinga Páls, „fanga sem eiga sér fáa málsvara í þjóðfélagi haturs og hefnigirni, fanga sem Páll veit að er óheimilt að tjá sig í fjölmiðlum. Fangarnir eru því varnarlausir gegn aðför forstjóra Fangelsismálastofnunar.“
Ingibjörg segir að Páll hafi „ítrekað veist ómaklega að ákveðnum skjólstæðingum sínum í fangelsinu á Kvíabryggju. Hann brýtur á þeim sem ekki geta varið sig og hefur orðið uppvís að því að fara með rangt mál. Einn þeirra sem Páll hefur brotið á er eiginmaður minn, Ólafur Ólafsson, sem afplánar þar dóm.“
Ingibjörg ræðir um nýlegt mál þar sem komst í fjölmiðla að Ólafur og fleiri fangar hygðust stunda nám í reiðmennsku. „Um er að ræða fjarnám skipulagt af Endurmenntunardeild Landbúnaðarháskóla Íslands. Verklegi hluti námsins átti að fara fram á næsta bæ við Kvíabryggju,“ segir Ingibjörg í greininni.
Páll hafi hins vegar komið fram í fjölmiðlum og sagst hafa stoppað námið af á síðustu stundu. Hann hafi meðal annars farið í viðtal á RÚV „þar sem hann ræðir mjög frjálslega og allt að því háðslega um þetta sama mál og þessa sömu menn.“ Ingibjörg segir Pál ekki hafa nefnt nöfn skjólstæðinga sinna en enginn velkist í vafa um hverja hann hafi átt við, enda hafi hann sagt að mjög lítill hópur fanga hefði aðgengi að mörgum milljónum króna. Með þessum upplýsingum segir Ingibjörg að Páll hafi tjáð sig opinberlega um einkamál eiginmanns hennar og samfanga hans.