Marel hefur undirritað kaup á MPS meat processing system, sem er hollenskt fyrirtæki sem framleiðir búnað fyrir fyrsta stig kjötvinnslu. Þetta kemur fram á vef Marels, en samkvæmt tilkynningu nemur kaupverðið um 55 milljörðum íslenskra króna, 382 milljónum evra, sem gerir kaupin stærstu kaup íslensks fyrirtækis á öðru fyrirtæki frá því fyrir hrun.
Í tilkynningu Marel kemur fram að fyrirtækið styrki stöðu sína sem leiðandi framleiðandi á háþróuðum búnaði og kerfum til vinnslu á kjöti og fiski. „Í sameinuðu félagi er áætlað að kjötiðnaður muni skila um það bil 30% af heildartekjum og EBITDA á ársgrundvelli,“ segir í tilkynningunni.
MPS er með höfuðstöðvar í Hollandi og um 670 starfsmenn. Áætlaðar árstekjur félagsins á þessu ári eru 150 milljónir evra, og EBITDA hagnaður nálægt 40 milljónum evra. Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, segir að fyrirtækið passi vel við Marel og muni styrkja félagið. „Yfirtakan mun styrkja stöðu Marel sem markaðsleiðtoga á ört vaxandi markaði og auka samkeppnishæfni og arðsemi til lengri tíma litið.“
Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki frá samkeppnisyfirvöldum. Hluthafar í MPS munu svo nota hluta kaupverðsins til að fjárfesta í Marel, og munu þeir geta keypt 10,8 milljón hluti á genginu 213 krónur.