Íslendingar verða að hafa þor og kjark til að horfast í augu við þá staðreynd að innan Íslam sé hópur byggður á öfgakenndri túlkun þeirrar trúar. Þessi hópur „telur það réttlætanlegt að drepa alla, hvort sem þeir eru Múhameðstrúarmenn eða Vesturlandabúar eða Kristnir, sem ekki vilja gangast undir hin algjöru, óskorðuðu, yfirþyrmandi lög íslam.“
Þetta sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í viðtali við Hallgrím Thorsteinsson á Rás 1 í morgun.
Forsetinn ræddi um hryðjuverkin í París og hryðjuverkaógnina í heiminum. „Hvort sem að frjálslyndum öflum svokölluðum líkar það betur eða ver, þá er það núna orðið viðfangsefni kjörinna fulltrúa víða í Evrópu, að koma í veg fyrir að venjulegt fólk sé drepið,“ sagði hann.
Ástæða til að hafa áhyggjur af afskiptum í trúmálum
Bent hefur verið á að forseti Íslands hefur fundað með sendiherra Sádi-Arabíu hér á landi, og skjöl um fund þeirra voru birt á vefsíðu Wikileaks. Í skjölunum var sagt að forseti Íslands hefði hrósað Sádi-Arabíu og óskað eftir nánara samstarfi ríkjanna. Ólafur Ragnar segir að þessi skjöl, sem komu úr sendiráði Sádi-Arabíu, hafi verið „meira og minna uppspuni og ýkjur.“
Ólafur sagði í viðtalinu að hann hefði sjálfur vakið athygli á boði sendiherrans um fjárhagslegan stuðning Sádi-Arabíu við trúfélög á Íslandi. Þetta hafi komið fram á fundi hans með nýjum sendiherra ríkisins og afskipti Sádi-Araba af trúmálum á Íslandi sé áhyggjuefni.
„Hverjir eru hagsmunir og ástæður þess að það ríki sem hefur stutt - umfram öll önnur ríki - hið öfgafulla íslam, er nú farið að hafa afskipti af því hér á Íslandi, af því hvernig trú er iðkuð hér á Íslandi? Og þegar menn spyrja: „Snertir þetta okkur eitthvað?“ Þá svara ég með þeim hætti að benda á þá staðreynd að forseti lýðveldisins, borgaryfirvöld í Reykjavík, forystumenn þessara safnaða á Íslandi, allir þessir aðilar hafa nú orðið á undanförnum mánuðum með einum eða öðrum hætti þurft að hafa afskipti af því sem Sádi-Arabía er að reyna að gera á Íslandi. Og það er nýr veruleiki fyrir okkar litla land,“ sagði hann.