Ísland er öruggasta ríki heimsins, samkvæmt alþjóðlega friðarstuðlinum (e. Global Peace Index). Ísland hefur verið öruggasta ríkið á hverju ári frá árinu 2007, þegar friðarstuðullinn var birtur í fyrsta sinn.
The Independent tók í gær saman listann yfir fimmtán öruggustu ríkin til þess að ferðast til, í tilefni af ferðaviðvörunum Bandaríkjastjórnar, sem ráðleggur Bandaríkjamönnum frá ferðalögum um allan heim eftir hryðjuverkin í París.
Grafið hér að ofan byggir á grafi Independent, en alþjóðlegi friðarstuðullinn tekur meðal annars inn í myndina öryggisástandið í ríkinu, hervæðingu og þátttöku í átökum, bæði innanlands og utan. Þá er fjöldi manndrápa, aðgangur að vopnum, ofbeldisfull mótmæli og fleira tekið með í reikninginn.
Stuðull er gefinn fyrir þessa þætti á skalanum 1 til 5. Ísland fer upp í tvo í fjórum málaflokkum sem eru mældir. Það er í stríðsátökum erlendis, í innflutningi á vopnum, í fjölda lögreglumanna og í skynjun á glæpum.
Í neðstu sætunum í friðarstuðlinum eru Sýrland, Írak og Afganistan, í þessari röð.