Rio Tinto Alcan þyrfti að borga fyrir rafmagnið sem það kaupir af Landsvirkjun út samningstímann, til ársins 2036, ef til þess kæmi að álverinu yrði lokað. Þetta segir Viðskiptablaðið, sem hefur eftir heimildum sínum að móðurfélagsábyrgð sé í samningum á milli Rio Tinto og Landsvirkjunar, sem hafi í för með sér að móðurfélagið verði að borga.
Eins og Kjarninn greindi frá í gær vilja hvorki Rio Tinto né Landsvirkjun tjá sig um málið, að öðru leyti en að Landsvirkjun hefur bent á að samningur á milli fyrirtækjanna var endurskoðaður í fyrra og gildir til ársins 2036.
Raforkukostnaður álversins er um 14,3 milljarðar króna á ári samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins. Áætlað tap gæti orðið 3,5 milljarðar á þessu ári og þá yrði tapið frá árinu 2012 orðið um 9,5 milljarðar króna.
Samkvæmt samningum Landsvirkjunar og Rio Tinto frá árinu 2010 var orkuverðið sem Rio Tinto borgar þá 30 Bandaríkjadalir á megawattstund. Samningurinn er tengdur bandarískri verðvísitölu en ekki álverði og því er verðið líklega nú í um 33 Bandaríkjadölum að minnsta kosti. Það eru um 14 milljarðar króna á ári sem Rio Tinto greiðir Landsvirkjun fyrir orkuna.
Í greiningu Viðskiptablaðsins á stöðu álversins segir að tapið á rekstri þess þyrfti að vera meira en sem nemur raforkukostnaðinum til að það borgi sig að loka álverinu, og því sé það óskynsamlegt og ólíklegt að álverinu verði lokað nú.
Rio Tinto hefur á undanförnum árum lokað fjórum álverum.