Þingmenn úr öllum flokkum, nema Sjálfstæðisflokknum og Vinstri grænum, vilja að kannaðir verði kostir þess að flytja innanlandsflug frá Reykjavíkurflugvelli til Keflavíkurflugvallar. Þetta kemur fram í þingsályktunartillögu sem þingmennirnir hafa lagt fram á Alþingi.
Oddný G. Harðardóttir, Páll Valur Björnsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Birgitta Jónsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Róbert Marshall, Páll Jóhann Pálsson, Ásta Guðrún Helgadóttir og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir vilja að innanríkisráðherra láti gera könnun á kostunum við það að flytja flugið til Keflavíkur og leggja mat á rekstrargrundvöll og möguleg sóknarfæri Keflavíkurflugvallar með tilliti til þróunarmöguleika flugvallarins og áhrifa á íbúa, ferðaþjónustu og atvinnulíf á Suðurnesjum. Þau vilja að Ólöf Nordal innanríkisráðherra skili skýrslu með niðurstöðunum á vorþingi 2016.
Þingmennirnir ræða í greinargerð með tillögunni skýrsluna sem gerð var flugvallarkostum fyrir Reykjavíkurflugvöll, en Keflavík var ekki tekin með í þeirri athugun. „Að mati flutningsmanna er nauðsynlegt að meta Keflavíkurflugvöll á sama hátt og þá flugvallarkosti sem metnir voru í skýrslu stýrihópsins. Líklegt má telja að Keflavíkurflugvöllur kæmi vel út úr slíku mati með tilliti til þeirra þátta sem nefndir hafa verið hér að framan. Ljóst má vera að stofnkostnaður fyrir innanlandsflug á Keflavíkurflugvelli yrði lægri en á öðrum stöðum sem metnir voru. Keflavíkurflugvöllur er stærsti flugvöllur landsins og þar eru flestir þeir innviðir sem þarf fyrir rekstur innanlandsflugs. Meta þyrfti þó hvort rétt væri að byggja nýja flugstöð sem sérstaklega mundi þjóna innanlandsflugi. Aðrir innviðir, eins og flugbrautir, eru til staðar. Þá má telja líklegt að samlegðaráhrif með millilandaflugi mundi gera það að verkum að rekstrarkostnaður yrði minni en á sérstökum innanlandsflugvelli,“ segir í greinargerðinni.
Í upphaflegu fréttinni var sagt að þingmennirnir væru úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokki. Hið rétta er að enginn þingmaður úr Vinstri grænum er heldur meðal flutningsmanna.