Það eru klikkhausar í öllum hópum, þar með talið trúarbrögðum, en það er sorglegt ef við látum þá stjórna því hvernig við hugsum og högum okkur og komum fram gagnvart meðborgurum okkar. Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, í færslu á Facebook-síðu sinni í dag.
Jóhannes deilir frétt af vinningstillögu fyrir nýja mosku í Reykjavík, og segir hana fallegt hús sem sé vel hannað inn í umhverfið. Hann skrifar einnig um umræðuna um íslam og múslima undanfarið og segir: „Mér finnst skelfing sorglegt hnútukast í gangi núna um sundrungu hræðslu og að fólk sem aðhyllist þessi eða hin trúarbrögðin séu svona eða hinsegin. Alhæfingar hafa sjaldnast verið uppspretta skynsamlegrar umræðu. Fólk er bara fólk, sama hvar það býr í heiminum og sama hverju það trúir.“ Í grunninn sé fólk bara að reyna að uppfylla drauma og vonir og búa fjölskyldu sinni góða framtíð.
„Það eru klikkhausar í öllum hópum, jafnt öllum trúarbrögðum og öðrum hópum. En það er ósköp sorglegt ef við látum klikkhausana stjórna því hvernig við hugsum og högum okkur og komum fram gagnvart meðborgurum okkar. Bætt samfélag byrjar með okkur sjálfum.“
Sigmundur Davíð vildi ekki mosku á þennan stað
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur sagt að hann sé ekki á móti byggingu mosku í Reykjavík, en að hann vilji ekki að hún rísi í Sogamýri, þar sem hún er fyrirhuguð. Sigmundur var gagnrýndur fyrir að taka ekki afdráttarlaust til orða eftir að umræða um byggingu mosku varð stórmál í síðustu sveitarstjórnarkosningum, þegar verðandi borgarfulltrúar Framsóknarflokksins hófu umræðu um málið og sögðust vilja afturkalla úthlutun lóðarinnar.
Bæði Sigmundur og Ólafur Ragnar Grímsson hafa verið gagnrýndir og sagðir valda sundrungu meðal Íslendinga með ummælum sínum í kjölfar hryðjuverkanna í París.