Seðlabanki Íslands braut gegn jafnréttislögum og þarf að greiða konu, sem kærði bankann, 250 þúsund krónur í málskostnað samkvæmt úrskurði kærunefndar jafnréttismála.
Konan var ráðin inn til bankans í maí 2014 sem sérfræðingur í undanþágudeild gjaldeyriseftirlits bankans og á sama tíma var ráðinn inn karl í sambærilega stöðu sem sérfræðingur í rannsóknardeild gjaldeyriseftirlits bankans. Konan og karlinn luku meistaranámi í lögfræði með árs millibili og höfðu bæði aflað sér málflutningsréttinda. Kærunefnd jafnréttismála bendir á í sínum úrskurði að þau séu nánast á sama aldri og hafi verið svipað lengi á vinnumarkaði eftir útskrift. Nákvæmlega sömu hæfniskröfur voru einnig gerðar í auglýsingu fyrir störfin tvö og við ráðningu var þeim báðum raðað í sama launaflokkinn og sama þrepið innan þess flokks.
Niðurstaða Seðlabankans við ákvörðun launa var hins vegar að konan fékk 17 prósenta álag ofan á kjarasamningslaunin en karlinn fékk 32,4 prósenta álag ofan á sín laun.
Kærunefnd jafnréttismála segir Seðlabankanum ekki hafa tekist að sýna fram á að launamunurinn milli konunnar og karlsins hafi komið til vegna nokkurs annars en kynferðis þeirra.
Seðlabankinn hélt því fram í málinu að öll laun starfsmanna í gjaldeyriseftirliti séu ákveðin með sama hætti, óháð því hvort um sé að ræða konur eða karla. Hlutfall álagsins sem um ræðir er ákvarðað með tilliti til málefnalegra sjónarmiða, segir Seðlabankinn, eins og menntunar, þekkingar og reynslu af þeim viðfangsefnum sem viðkomandi er að fara að takast á hendur. Við þessa ákvörðun fari fram huglægt matsem grundvallist á upplýsingum úr umsókn, ferilskrá og starfsviðtali.
Seðlabankinn segir að karlinn hafi verið talinn búa yfir víðtækari þekkingu og starfsreynslu á þeim sviðum sem skiptu máli, og þess vegna hafi honum verið ákvarðað hærra álag. Hann hafi getað án sérstakrar aðlögunar og tilsagnar hafið rannsókn á flóknum málum.
Kærunefnd jafnréttismála bendir á að þetta þýði að ákvörðun um álag var tekin áður en báðir einstaklingar hófu störf hjá bankanum. Þekking þeirra var ekki prófuð en matið sem var framkvæmt byggðist helst á því sem þau sögðu í ráðningarviðtölum. „Það getur vart talist málefnalegt í þessum efnum að leggja til grundvallar ólíkar upplýsingar sem fram koma í ráðningarviðtölum“ segir nefndin.