„Það þolir ekki lengri bið að hefja endurbætur á gervigrasvöllum með úrgangs-dekkjakurli og skipta kurlinu út,“ segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, um mikilvægi þess að dekkjarkurl hverfi af gervigrasvöllum í Reykjavík.
Hann segir lækna hafa margvarað við því í dekkjarkurlinu séu heilsuspillandi efni, sem geti leitt til krabbameins og valdið ófrjósemi. „Fimm ár eru liðin síðan íslenskir læknar vöruðu við notkun úrgangs-dekkjakurls og Læknafélag Íslands hefur ítrekað ályktað um málið. Á undanförnum árum hafa æ fleiri sérfræðingar varað við notkun slíks dekkjakurls og hvatt til að því sé skipt út þar sem það er enn í notkun enda eru börn og unglingar helstu notendur þessara valla. Flestir þeir vellir, sem innihalda úrgangs-dekkjakurl, eru orðnir svo gamlir að það er hvort eð er kominn tími til að endurnýja þá vegna mikillar notkunar. Endurnýjun allra þessara valla er svo dýr að ég reikna með að það þurfi að dreifa henni á nokkur ár. Byrja þarf á þeim völlum sem eru verst farnir og er mikilvægt að það verði gert á komandi ári,“ segir Kjartan.
Töluverð umræða hefur verið um þessa stöðu sem uppi er á sparkvöllum og gervigrasvöllum, ekki bara í Reykjavík heldur víða um land. Þannig hefur lífleg umræða verði á Facebook síðu undir yfirskriftinni; Nýjan völl án tafar. Öll dekkjakurl til grafar.
Þar hafa foreldrar barna sem nýta vellina til æfinga og keppni skipst á upplýsingum og minnt á mikilvægi þess að láta heyra í sér, þegar sveitarfélög, og þá einkum Reykjavíkurborg, er að taka ákvörðun um eyðslu fjármuna samkvæmt fjárhagsáætlun næsta árs.
Kjartan segir að þessi mál ættu að vera á undan mörgum öðrum sem borgin ætli sér fjármagna á næsta ári. „Mikilvægt er að forgangsraða í þágu þessara framkvæmdar á næsta ári og láta börnin njóta vafans varðandi þær rökstuddu áhyggjur sem hafa komið fram um hugsanlega skaðsemi vegna eiturefna í úrgangs-dekkjakurli. Í frumvarpi að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2016 er hins vegar gert ráð fyrir ýmsum framkvæmdum fyrir mörg hundruð milljónir sem ekki er þörf á eða mætti að minnsta kosti fresta,“ segir Kjartan.