Niðurstöðu endurupptökunefndar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu er ekki að vænta á þessu ári eins og vonast hafði verið til. Endurupptökunefnd bíður enn eftir gögnum í málinu og á meðan svo er fæst ekki niðurstaða í málið. Þetta staðfestir Björn L. Bergsson, formaður endurupptökunefndar, við Kjarnann. Endurupptökunefnd tekur endanlega ákvörðun um það hvort málið verði tekið upp að nýju.
Settur ríkissaksóknari í málinu, Davíð Þór Björgvinsson, hefur gefið það út að honum þyki rök fyrir því að mál Sævars Ciesielskis, Tryggva Rúnars Leifssonar, Alberts Klahns Skaftasonar og Guðjóns Skarphéðinssonar verði tekin upp á nýjan leik. Hann mælti hvorki með né gegn því að taka upp mál Erlu Bolladóttur aftur og Kristján Viðar Viðarsson fór ekki fram á endurupptöku máls síns.
Eftir að Davíð Þór hafði skilað sínu áliti fengu þau öll, eða ættingjar þeirra, að skila inn umsögn um málið. Það gerðu allir áður en frestur til þess rann út í lok september.
Endurupptökunefndin óskaði einnig eftir viðbótargögnum, sem starfshópur innanríkisráðherra um Guðmundar- og Geirfinnsmálið hafði aflað þegar skýrsla var unnin um málið, en henni var skilað árið 2013. Björn sagði frá því í samtali við RÚV í október að stefnt væri að því að niðurstaða fengist fyrir áramót, en ekki væri hægt að fastsetja dagsetningu meðan enn væri verið að afla gagna. Það er enn staðan, og Björn segist ekki geta nefnt neina dagsetningu sem miðað sé við, því nefndin sé háð öðrum um að fá gögn.
Sexmenningarnir voru öll dæmd í Hæstarétti árið 1980. Sævar var dæmdur í sautján ára fangelsi og Kristján Viðar sextán ára, Tryggvi var dæmdur í þrettán ára fangelsi og Guðjón tíu ára fangelsi. Erla var dæmd í þriggja ára fangelsi og Albert í árs fangelsi.