Íslensk stjórnvöld íhuga ekki að biðjast afsökunar á þátttöku sinni í innrásinni í Írak, með því að vera á hinum svokallaða lista hinna viljugu þjóða. Þetta má lesa út úr svari Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra við fyrirspurn Svandísar Svavarsdóttur, þingmanns VG.
Svandís spurði Sigmund að því hvort hann hygðist biðjast afsökunar í ljósi þess að Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, hafi beðist afsökunar á rangri upplýsingagjöf til bresks almennings í aðdraganda stríðsins. Hún spurði hvort Sigmundur ætlaði að gangast fyrir sambærilegri afsökunarbeiðni stjórnvalda til Íslendinga, sökum þess að sömu blekkingum hafi verið beitt til að skipa íslenska ríkinu í hóp stuðningsríkja stríðsins.
Sigmundur segir í svari sínum að ekki verði séð af gögnum um málið að íslensk stjórnvöld hafi haft nokkra aðkomu að ákvörðun um árás Bandaríkjanna og bandamanna þeirra á Írak. Þvert á móti sýni gögnin að skráning Íslands á lista hinna viljugu hafi verið að frumkvæði bandarískra stjórnvalda, og að þeim hafi verið gert ljóst að Ísland væri herlaust ríki.
„Það er skoðun ráðherra að ekki hefði átt að heimila bandarískum stjórnvöldum að skrá Ísland á lista sem tengdur var við hernaðaraðgerðir og að eftir birtingu listans hefði verið æskilegt að Íslendingar hefðu áréttað betur, opinberlega, að vera á listanum fæli ekki í sér stuðning við hernaðaraðgerðir eins og fulltrúa bandarískra stjórnvalda hafði verið gert ljóst þegar hann afhenti listann,“ segir í svari Sigmundar.
„Ljóst má vera að ef til greina kæmi, af hálfu íslenskra stjórnvalda, að biðjast afsökunar á einhverjum þeim hernaðaraðgerðum sem ráðist hefur verið í með það að markmiði að steypa einræðisherrum af stóli koma vart önnur átök til álita en árásin á Líbýu þar sem ríkisstjórn Íslands var virkur þátttakandi í ákvörðun um hernaðaraðgerðir,“ sagði Sigmundur einnig í svarinu, og að árásin á Líbýu árið 2011 væri eina tilvikið þar sem Ísland hefði haft beina aðkomu að ákvörðun um hernaðaríhlutun. Hann ætlaði þó ekki að leggja mat á hvort tilefni væri fyrir afsökunarbeiðni vegna þess.