Birkir Kristinsson, fyrrum landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, var í dag dæmdur í fjögurra ára fangelsi í Hæstarétti Íslandi fyrir sína aðild að BK-44 málinu. Elmar Svavarsson hlaut fjögurra ára dóm, Jóhannes Baldursson þriggja ára dóm og Magnús Arnar Arngrímsson tveggja ára dóm. Engin dómanna er skilorðsbundinn. Mennirnir voru allir dæmdir sekir í héraði en til þyngri refsingar. Hæstiréttur mildaði því dóma þeirra. Í dómi Hæstaréttar segir að gögn málsins bæru þess engin merki að 3,8 milljarða króna lánveiting sem málið snýst um hefði verið til meðferðar hjá viðeigandi lánanefndum innan Glitnis banka og hefði hún því átt sér stað án fullnægjandi umboðs eða heimildar. Háttsemi allra ákærðu hefði varðað gríðarlegar fjárhæðir og valdið Glitni stórfelldu tjóni. Hægt er að lesa dóminn í heild sinni hér.
Í málinu ákærði sérstakur saksóknari fjóra fyrrum starfsmenn Glitnis fyrir umboðssvik, markaðsmisnotkun og brot á lögum um ársreikninga í tengslum við 3,8 milljarða króna lánveitingu bankans til félags sem hét BK-44 í nóvember 2007. Lánið var notað til að kaupa bréf í Glitni af Glitni. Í málinu voru þrír mannanna dæmdir í fimm ára fangelsi og einn í fjögurra ára fangelsi í héraðsdómi Reykjavíkur í júní 2014.
Birkir Kristinsson, sem var starfsmaður einkabankaþjónustu Glitnis og fyrrum landsliðsmarkvörður Íslands í knattspyrnu, hlaut fimm ára dóm í héraði. Hann var eigandi félagsins BK-44 ehf. sem keypti bréfin. Hann var ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum. Auk hans voru þeir Elmar Svavarsson verðbréfamiðlari og Jóhannes Baldursson, fyrrum framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Glitnis, einnig dæmdir í fimm ára fangelsi. Magnús Arnar Arngrímsson, fyrrum framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Glitnis, var dæmdur í fjögurra ára fangelsi í héraði.
Dómar allra voru, eins og áður sagði, mildaðir í Hæstarétti í dag.