Það stefnir í hið versta verður í dag og verður fárviðri um svo til allt land seinnipartinn og í kvöld, gangi spár Veðurstofu Íslands eftir.
Almannavarnir hafa beðið íbúa á Suðurlandi um að halda sig heima eftir klukkan eitt í dag og íbúa annarra landshluta eftir klukkan fimm - meðal annars á höfuðborgarsvæðinu.
Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, segir að hröð dýpkun lægðarinnar geri hana skeinuhætta og um margt sérstaka. „Það er ör dýpkun lægðarinnar og sérlega mikið loftþrýstingsfall á undan skilum hennar sem gerir óveðrið skeinuhætt. Norður af landinu og yfir Grænlandi heldur köld hæð á móti. Þarna á milli mætast stálin stinn, þ.e. beint yfir Íslandi. Vindátt er austlæg og afar fátítt er að sjá í veðurspám þetta mikla og almenna vindröst þessarar gerðar yfir nánast öllu landinu,“ segir Einar.
Hann segir að í ljósi þess hve mikill snjór sé yfir öllu landinu þá þurfi ekki mikla snjókomu til að gera „glórulausan“ byl. „Hvass vindur dugar einn og sér, enda er það vel þekkt að fluttningur lausamjallar eykst í 3 veldi af vindhraðanum. Fljótlega upp úr hádegi verður þannig lítið skyggni syðst á landinu og þeir sem eiga erindi austur yfir fjall eða í bæinn af Suðurlandi ættu að hyggja á ferðir fyrir miðjan daginn. Sama með Kjalarnes, þar sem blæs hressilega í þessari vindátt og snjókófið kemur þess vegna ofan úr Esjunni. Á Höfuðborgarsvæðinu snjóar einnig síðdegi og fram á kvöldið og í 3 til 4 klst verður hríðarveður og fennir í skafla. En skilin ganga yfir á endanum og rofar til. En um það leyti hlánar líka, hiti fer í 4 til 5°C um tíma og vatn tekur af renna og leita ser næsta niðurfalls. Alls ekki þó nein asahláka, frekar að tala um væga leysingu,“ segir Einar.
Lægðinni er síðan spáð vestur fyrir Reykjanes og suðvestanlands getur hvesst að nýju á þriðjudagsmorgun, en eins og alltaf þegar veðrið er annars vegar, þá er nokkur óvissa um framvindu mála.
Einar segir að á Norður-Atlantshafinu verði þessa dagana mörg stefnumót ólíkra loftmassa sem leiði til myndunar óveðurslægða. „Tíðindi hafa borist frá Skandinavíu og Bretlandseyjum um veðuráraun þar sem rekja má til óróleikans sem verður þegar heimskautaloft streymir í sífellu frá N-Ameríku og langt suður á Atlantshaf. Stefnir hins vegar í breytingar um miðja vikuna og dregur úr krafti lægðanna a.m.k. fyrst um sinn,“ segir Einar Sveinbjörnsson.