Framlög ríkisins til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða verða aukin um 517 milljónir króna, þrátt fyrir að 1,2 milljarður króna hafi legið óhreyfður í sjóðnum í september síðastliðnum. Milljónirnar bætast við sjóðinn í fjárlögum næsta árs, samkvæmt tillögu meirihluta fjárlaganefndar. Auk þess hefur 850 milljónum verið bætt inn í sjóðinn samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið sem er að líða.
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið greindi frá því í september síðastliðnum að við undirbúning fjárlaga fyrir næsta ár hefði komið í ljós að „umtalsverðir fjármunir“ eða 1,2 milljarðar króna, lægju enn óhreyfðir í sjóðnum. Þessum fjármunum hafði ekki enn verið ráðstafað í þau verkefni sem þeim hafði verið úthlutað til. Ýmsar ástæður væru fyrir því en ljóst væri að bæta þyrfti úr skipulagi og framkvæmd.
Af þessum sökum var gert ráð fyrir 149 milljóna króna framlagi til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða í fjárlagafrumvarpi næsta árs, en ráðuneytið sagði þá að ákvarðanir um frekari framlög yrðu teknar við meðferð fjárlagafrumvarpsins, þegar búið væri að greina stöðuna. Kjarninn hefur óskað eftir upplýsingum um þessa greiningu.
Meirihluti fjárlaganefndar leggur nú til 517 milljónir til viðbótar, svo að sjóðurinn fái samtals 666 milljónir króna á næsta ári.
850 milljónum bætt við í fjáraukalögum
Í fjárlögum þessa árs var gert ráð fyrir 145,8 milljóna króna framlagi í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Þeirri upphæð mótmælti stjórnarandstaðan og sagði ljóst að upphæðin myndi ekki duga til og ljóst væri að bæta þyrfti við fjármagni á fjáraukalögum.
Það hefur svo komið á daginn, en í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið í ár, sem er til meðferðar á Alþingi nú, er lagt til að 850 milljónir króna til viðbótar verði settar í sjóðinn. Auk þess bættust 12,2 milljónir við í breytingatillögu við aðra umræðu vegna þess að tekjur af gistináttaskatti voru meiri en áætlað var.
Þetta 850 milljóna króna framlag var tilkynnt strax í vor, eftir að ríkisstjórnin ákvað að setja aukið fé í sjóðinn. Fjárlaganefnd var kynnt þetta í vor. Meirihluti nefndarinnar segir að það sé verkklag sem sé til fyrirmyndar, á meðan minnihlutinn gagnrýnir þetta harðlega. „Verið er að setja fjármagn í verkefni sem áttu að vera á fjárlögum. Með því að setja það í fjáraukalög er verið að brjóta lög um fjárreiður ríkisins enda ekkert ófyrirséð eða óvænt á ferð. Það að fjármálaráðherra kynni áformin fyrir fjárlaganefnd breytir engu þar um,“ segir í nefndaráliti minnihluta nefndarinnar.