Hagvöxtur á þriðja ársfjórðungi mældist 2,6 prósent miðað við sama tíma í fyrra. „Tölurnar komu nokkuð á óvart, en svo til allir liðir voru undir væntingum okkar,“ segir í umfjöllun greiningardeildar Arion banka.
Var hagvöxturinn á þriðja fjórðungi var einkum drifinn áfram af fjárfestingu en hún jókst um fimm prósent, og síðan einkaneyslu, sem jókst um 4,3 prósent miðað við sama tímabil í fyrra.
Þó er lítið um stórtíðindi í tölunum og breyta þær því ekki stýrivaxtaspá okkar, en Seðlabankinn kynnir vaxtaákvörðun í fyrramálið.
Vöxtur fjárfestingar gaf nokkuð eftir á fjórðungnum samanborið við fyrri helming ársins. Sem fyrr er það atvinnuvegafjárfesting sem dregur vagninn, en íbúðafjárfesting og opinber fjárfesting drógust saman á fjórðungum. „Nokkuð áhyggjuefni er að sjá að fjárfesting í íbúðarhúsnæði heldur áfram að dragast saman, en við höfðum séð fyrir okkur lítilsháttar aukningu í þeim lið. Verðhækkanir á fasteignamarkaði, lækkun á vöxtum íbúðalána og lækkun skulda heimila virðast því enn um sinn ekki ná að ýta undir frekari fjárfestingu á húsnæðismarkaði,“ segir í umfjöllun greiningardeildar Arion banka.
Alls jókst atvinnuvegafjárfesting um 10,8 prósent en íbúðafjárfesting og fjárfesting hins opinbera drógust saman um fjögur prósent og 7,6 prósent hvor um sig.
Útflutningur jókst um 3,7 prósent á milli ára, en það er „nær eingöngu myndarlegur vöxtur þjónustuútflutnings er skýrir þann vöxt (10,9 prósent). Innflutningur jókst hinsvegar á sama tíma um 4,9 prósent svo framlag utanríkisverslunar til hagvaxtar var neikvætt,“ segir í umfjöllun greiningardeildar Arion banka.
Seðlabanki Íslands tilkynnir um vaxtaákvörðun sína á morgun, en meginvextir bankans eru nú 5,75 prósent og mælist verðbóla tvö prósent. Verðbólgumarkmið bankans er 2,5 prósent.