Siv Friðleifsdóttir, fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins, fékk tæpar tuttugu milljónir króna frá félags- og húsnæðismálaráðuneytinu fyrir aðstoð vegna norræns samstarfs, formennsku Íslands í norrænu ráðherranefndinni og vinnu í velferðarvaktinni frá upphafi ársins 2014.
Þetta kemur fram í svari Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, við fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, á Alþingi. Katrín hefur spurt alla ráðherranna um útgjöld þeirra vegna sérfræði-, ráðgjafar- og kynningarstarfa.
Félags- og húsnæðismálaráðuneytið keypti samtals þjónustu fyrir 129,5 milljónir króna á tímabilinu. Stærsti hluti þeirrar þjónustu var veittur vegna ýmissa starfa tengdum framtíðarskipan húsnæðismála. Samtals keypti ráðuneytið þjónustu fyrir 59,9 milljónir króna vegna þess verkefnis frá níu aðilum. Dýrasta þjónustan var frá KPMG, sem aðstoðaði við tillögu- og frumvarpsgerð vegna framtíðarskipan húsnæðismála. Fyrirtækið fékk 24,9 milljónir króna frá ráðuneytinu fyrir aðstoðina. Analytica fékk síðan 20,9 milljónir króna fyrir ráðgjöf vegna framtíðarskipan húsnæðismála.
Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra svaraði líka fyrirspurninni í dag. Ráðuneyti hans hefur keypt þjónustu fyrir samtals 124,9 milljónir króna á tímabilinu. Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra Samfylkingarinnar og núverandi varaþingmaður, fékk 4,6 milljónir króna frá menntamálaráðuneytinu á tímabilinu fyrir tvö verkefni. Annars vegar 3,8 milljónir vegna OECD skýrslu, Country Background Report, og hins vegar 800 þúsund „vegna skilgreiningar á eftirlitshlutverki menntamálaráðuneytisins.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra keypti þjónustu fyrir 78 milljónir króna á sama tímabili. Íslenska skipafélagið fékk hæstu upphæðina, 14,8 milljónir króna fyrir verkefnastjórn verkefnisins Betri heilbrigðisþjónusta.