Sú niðurstaða starfsmanna í álveri Rio Tinto í Straumsvík, að fresta verkfallsaðgerðum sem áttu að hefjast 2. desember, hefur þjappað starfsmönnum saman, og segir Gylfi Ingvarsson, sem er í forsvari fyrir starfsmenn, að kröfum sé haldið til streitu af jafnvel meiri þunga nú en áður. Þetta var meðal þess sem kom fram í viðtali RÚV við Gylfa.
Gylfi sagði í viðtali við Morgunútvarpið á Rás 2 daginn eftir að verkfallinu var aflýst að starfsmenn álversins í Straumsvík hafi ekki getað annað en aflýst verkfalli, eftir að stjórnendur hér á landi sögðu að ella réðust afdrif kjarabaráttunnar hjá stjórnendum Rio Tinto í útlöndum. Þannig hafi þeim í reynd verið stillt upp við vegg.
Margir túlkuðu þessi skilaboð sem dulbúna hótun um að álverið gæti lokað ef til framleiðslustopps kæmi, en stjórnendur höfðu meðal annars viðrar slíkar hugmyndir við bæjaryfirvöld í Hafnarfirði.
Fundað er hjá samninganefnd starfsmanna á morgun klukkan fjögur, að því er fram kom í viðtalinu við Gylfa. Þar verði farið yfir stöðuna í framhaldi af fundum verkalýðsfélaganna með sínum félagsmönnum í álverinu. „Deilan snýst um að færa til störf sem verkalýðshreyfingin hefur samningsrétt fyrir. Ef þessi störf fara úr samningsumhverfinu þar sem við sjáum um að semja yfir í samningsumhverfi á almennum markaði þá myndu launin lækka um 20 prósent. Það sér hver heilvita maður að það er enginn að fara að semja um slíkt,“ sagði Gylfi meðal annars í viðtalinu við Morgunútvarpið.
Stjórnendur Rio Tinto Alcan hafa sagt, að það sé krafa af hálfu fyrirtækisins að vilja fá rétt til þess að leita tilboða í tiltekin verkefni í álverinu, með það fyrir augum að leita bestu kjara.