Aðeins fimm ár undanfarin 30 ár hafa fleiri Íslendingar flutt frá landinu en í ár, jafnvel þótt aðeins liggi fyrir tölur um fyrstu þrjá ársfjórðunga ársins. Villandi og kjánalegt er að reyna að mótmæla þessum tölum. Þetta kemur fram í tímaritinu Vísbendingu.
„Sjaldan hafa fleiri flutt frá Íslandi (nettó = aðfluttir-brottfluttir) á heilu ári en hafa flutt frá landinu fyrstu þrjá ársfjórðungana. Það er villandi og kjánalegt að reyna að mótmæla því. [...] Það er líka markleysa að prófa tölfræðilega hvort marktækt fleiri hafi flutt á einu tímabili en öðru. Þeir eru einfaldlega fleiri eða færri,“ segir í tímaritinu, sem stærðfræðingurinn Benedikt Jóhannesson stýrir.
Í tímaritinu eru teknar saman tölur um flutning íslenskra ríkisborgara að og frá landinu undanfarin 30 ár og hvernig hagvöxtur var viðkomandi ár og árið á undan. „Taflan gefur til kynna að í góðæri sé líklegra að útstreymið sé minna en þegar á móti blæs. Tvö ár skera sig úr. Árin 1996 og 2015. Pólitíkusar geta
þráttað um þessa staðreynd, en Hagstofan
má aldrei láta undan þrýstingi og
reyna að fegra niðurstöður með rangri
tölfræði.“
Þá segir í ritinu að á nokkurra ára fresti flytji miklu fleiri úr landi en komi til baka. Satt að segja séu fá ár þar sem fleiri flytji heim en út. Það sé verðugt viðfangsefni félagsvísindamanna og stjórnmálafræðinga að skýra hvers vegna fólk flytji. „Í því er hægt að nota gildishlaðin orð eins og fólksflótti, en miklu skiptir auðvitað að tala um staðreyndir. Á sínum tíma flúðu margir frá Austur-Þýskalandi vestur yfir, en fátítt var að menn vildu fara hina leiðina. Engum datt í hug að velta því fyrir sér hvort þeir sem flúðu vestur væru marktækt fleiri en hinir, þeir voru einfaldlega miklu fleiri. Það var staðreynd sem ekki þurfti að blanda neinni tölfræði í.“
Hagstofan segir engar markverðar breytingar og ekki pólitískan þrýsting
Í mannfjöldatölum frá Hagstofunni á dögunum kom fram að 640 fleiri Íslendingar hafi flust frá landinu á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins en fluttu til landsins. Þetta varð tilefni fréttaskrifa og Ásgeir Jónsson hagfræðingur sagði í Morgunblaðinu að það virðist eitthvað djúpstæðara vera á ferðinni í fólksflutningum en venjulega, þegar fólk flytur í kjölfar kreppu, og að vísbendingar séu um að margt háskólafólk flytji úr landi. Batinn á vinnumarkaði, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum, hefði ekki skilað sér til menntaðs fólks nema að takmörkuðu leyti.
Í kjölfar mikillar umræðu sendi Hagstofan frá sér frétt þar sem sagt var að engar markverðar breytingar hafi átt sér stað á hlutfalli íslenskra ríkisborgara sem fluttu til og frá landinu á mismunandi aldursbili árið 2015 borið saman við sambærilegt hlutfall áranna 1986 til 2014. Aukinn fjöldi brottfluttra sé ekki umfram það sem telja má eðlilega sveiflu miðað við fyrri ár. „Þessi niðurstaða á við hvort sem horft er til búferlaflutninga hjá einstaklingum eða kjarnafjölskyldum."
Því var velt upp, meðal annars í pælingu dagsins í Kjarnanum, hvort þessi viðbrögð Hagstofunnar hefðu komið til vegna pólitísks þrýstings, en Hagstofan heyrir undir forsætisráðherra. Því hafnaði hagstofustjóri í aðsendri grein í Kjarnanum.