Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, segir að umræður um fjárlög á Alþingi snúist ekki um fjárlögin sjálf heldur um hana sjálfa og persónulega óvild annarra í garð hennar. Þetta kom fram á þingfundi á Alþingi í dag, en þingið er í annarri umræðu um fjárlögin fjórða daginn í röð.
Stjórnarandstaðan vill að umræðan verði stöðvuð og málið verði sent aftur til baka í fjárlaganefnd sökum þess að málið sé ekki tilbúið til umræðunnar. Í ljós kom fyrr í vikunni að meirihluti fjárlaganefndar gleymdi að gera ráð fyrir launahækkunum til framhaldsskólakennara, en það er kostnaður upp á 1,2 milljarða króna á næsta ári. Fleiri breytingartillögur hafi komið til og því vill stjórnarandstaðan fresta umræðunni. „Það er komið á daginn að það sem hér er til umræðu er einhvers konar uppkast eða einhvers konar drög að tillögum,“ sagði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar.
„Þetta er að verða ein skrýtnasta fjárlagaumræða sem ég hef tekið þátt í,“ sagði Vigdís, og undir það tóku raunar nokkrir þingmenn úr stjórnarandstöðunni, en af öðrum ástæðum. Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar sagðist næstum því taka það nærri sér að Vigdís teldi hann óvildarmann hennar. Hann sagði hins vegar að hann hefði setið á þingi í 25 ár og myndi aldrei eftir öðrum eins losarabrag á vinnslu frumvarpa. Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, sagði einnig að hann gæti tekið undir það að umræðan væri að verða ein sú undarlegasta á hans þingferli. Það væri hins vegar vegna þess að meirihlutinn væri að reynast algjörlega vanbúinn til þess að takast á við málið.
Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist hafa efasemdir um að fólk í meirihlutanum ætti að sinna störfum sínum ef það taki efnislega gagnrýni á störfin svona persónulega.