Fyrsti hópur kvótaflóttamanna sem stjórnvöld hyggjast taka á móti frá Sýrlandi kemur ekki til landsins á þessu ári eins og áður hafði verið áætlað. Nú er gert ráð fyrir því að hópurinn komi til Íslands um eða eftir miðjan janúar.
Velferðarráðuneytið greinir frá þessu og segir að af ýmsum ástæðum hafi tekið lengri tíma en áætlað var að ganga frá nauðsynlegum formsatriðum vegna útgáfu útgönguvegabréfa fyrir fólkið. Þessi vegabréf eru áskilin af hálfu líbanskra stjórnvalda við brottför þeirra, en hópurinn er allur staðsettur í flóttamannabúðum í Líbanon.
Í dag hófst námskeið á vegum alþjóðlegu fólksflutningastofnunarinnar fyrir flóttamannahópinn í Líbanon. Markmiðið er að undirbúa fólk fyrir þær breytingar sem framundan eru og hvers það megi vænta í nýju landi.
Búið er að semja um að fólkið sem kemur í janúar fer til Akureyrar, Kópavogs og Hafnarfjarðar. Hópurinn telur 55 einstaklinga frá Sýrlandi, þar af eru 35 börn.