Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, segir að Össur Skarphéðinsson geti ekki ætlast til þess að orð hans hafi vægi þegar hann ræði um að Illugi þurfi að segja af sér ef hann nær ekki frumvarpi sínu um RÚV út úr ríkisstjórn.
„Leitun er af [sic] ráðherra í stjórnmálasögu landsins sem hefur látið yfir sig ganga jafn mikið stefnubrot eins og hann gerði sem utanríkisráðherra,“ segir Illugi um ráðherratíð Össurar. Eins og Kjarninn greindi frá fyrr í dag sagði Össur á Alþingi að hann teldi Illuga ekki sætt í ríkisstjórn lengur ef hann nær ekki fram frumvarpi sínu um RÚV. „Þegar ráðherra nær ekki fram stefnu varðandi lykilstofnun þá er honum tæpast sætt lengur í ríkisstjórn. Þá er hann orðinn það sem stundum heitir á ensku máli, með leyfi forseta, lame duck,“ sagði Össur og tók dæmi af því þegar hann hafi farið á fund Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi forsætisráðherra, og boðað að hann myndi segja af sér ef hann næði ekki fram stefnu sinni um framlög til þróunaraðstoðar.
Illugi gerir þetta að umtalsefni í færslu á Facebook-síðu sinni. Hann rifjar upp að helsta stefnumál Samfylkingarinnar í síðustu ríkisstjórn hafi verið aðild Íslands að ESB. Össur hafi verið utanríkisráðherra þegar sótt var um en skýrt hafi komið fram og sé óumdeilt að ráðherrar VG hafi þvælst fyrir málinu „og kvað svo rammt að mótþróanum að utanríkisráðherrann þurfti að kyngja því að setja aðildarumsóknina á ís þegar draga tók að kosningum.“ VG hafi því stöðvað þetta mikilvægasta mál Samfylkingarinnar með stæl.
„Einhverjir hefðu nú sagt að utanríkisráðherra myndi aldrei sitja undir slíku, hann hlyti samvisku sinnar vegna að hóta afsögn og stilla þannig samstarfsflokki sínum upp við vegg. Um var jú að ræða sjálfan tilvistargrundvöll Samfylkingarinnar, algert prinsipmál fyrir flokkinn hans. En nei, hann hótaði afsögn út af deilu um fjármagn til þróunarmála.“
Af þessum sökum geti Össur ekki ætlast til þess að orð hans hafi vægi í þessu máli.