„Þegar ráðherra nær ekki fram stefnu varðandi lykilstofnun þá er honum tæpast sætt lengur í ríkisstjórn. Þá er hann orðinn það sem stundum heitir á ensku máli, með leyfi forseta, lame duck.“
Þetta segir Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, um Illuga Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra. Ólína Þorvarðardóttir, samflokkskona Össurar, spurði Össur um mat hans á stöðu Illuga í ljósi þess að frumvarp hans um RÚV muni líklega ekki nást út úr ríkisstjórn.
Illug sagði sjálfur í fréttum RÚV í gærkvöldi að oddvitar ríkisstjórnarinnar meti það sem svo að ekki sé nægur stuðningur í þingflokkum Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks við frumvarp hans um óbreytt útvarpsgjald. Hann er samt vongóður um að frumvarpið verði afgreitt fyrir jól.
„Stjórnskipulega hefur þetta leitt til stöðu sem er óviðunandi fyrir hæstvirtan menntamálaráðherra. Hann hefur upplýst það að hann hafi mótað stefnu í málefnum einnar helstu stofnunar síns ráðuneytis. Hann hefur lagt þá stefnu fyrir ríkisstjórnina og það kemur í ljós að innan ríkisstjórnarinnar þá nýtur hann ekki stuðnings fyrir stefnunni. Í máli sem þessu þá á hann í rauninni engan móralskan kost annan heldur en þann að segja af sér. Þannig lít ég á málið,“ sagði Össur og Ólína tók undir með honum.
Össur rifjaði upp dæmi af sjálfum sér sem utanríkisráðherra. Á tíma hafi virst sem svo að honum tækist ekki að koma fram stefnu sinni um framlög til þróunarsamvinnu. „Þá gekk ég á fund Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi forsætisráðherra, og sagði henni að ég mundi þá ekki sitja lengur í hennar ráðuneyti. Menn verða að taka afleiðingum sinnar stefnu og sinna gerða.“
Hins vegar væru ekki öll kurl til grafar komin í málinu og Össur telur að málinu sé ekki lokið. „Það er mögulegt að hæstvirtur ráðherra verði dreginn að landi áður en þriðju umræðu lýkur.“ Það að skilja hann eftir með málið jafngildi því að ýta honum út úr ríkisstjórn, og hann trúi því ekki að það gerist.