Hrannar Pétursson, fyrrum framkvæmdastjóri mannauðs-, markaðs- og lögfræðimála hjá Vodafone á Íslandi, íhugar að bjóða sig fram til forseta Íslands næsta sumar. „Það hafa margir spurt að því á undanförnum vikum hvort ég ætli að bjóða mig fram til embættis forseta Íslands. Mér þykir vænt um að fólk skuli hugsa til mín sem mögulegs frambjóðanda á sama tíma og það nefnir þörfina á að forseti veiti þjóðinni innblástur, tali fyrir virðingu í samfélaginu og sé bæði sanngjarn og staðfastur. Ég hef tekið þetta til mín en það er stór ákvörðun að bjóða sig fram og hún verður ekki tekin í flýti," segir Hrannar í samtali við Kjarnann.
Hrannar er félagsfræðingur, fæddur og uppalinn á Húsavík. Hann var um tíma sjónvarpsfréttamaður fyrir tæpum tveimur áratugum en hefur síðan mest starfað við upplýsinga- og samskiptamál, fyrst hjá ISAL sem á og rekur álverið í Straumsvík og síðar fjarskiptafyrirtækinu Vodafone þar sem hann stýrði einnig mannauðs-, markaðs- og lögfræðimálum. Þá starfaði hann sem verkefnisstjóri í forsætisráðuneytinu þar til í nóvember 2015, þar sem hann sinnti verkefnum fyrir ráðuneytisstjóra, en rekur nú eigið upplýsinga- og samskiptafyrirtæki.

Þá getur blaðið sér til um að Hrannar sé getinn á fyrsta heimili foreldra sinna, en þau bjuggu sín fyrstu hjúskaparár í húsi sem bar heitið Bessastaðir. Nú sé kominn tími til að Hrannar flytji til Bessastaða.