Hrannar Pétursson, fyrrum framkvæmdastjóri mannauðs-, markaðs- og lögfræðimála hjá Vodafone á Íslandi, íhugar að bjóða sig fram til forseta Íslands næsta sumar. „Það hafa margir spurt að því á undanförnum vikum hvort ég ætli að bjóða mig fram til embættis forseta Íslands. Mér þykir vænt um að fólk skuli hugsa til mín sem mögulegs frambjóðanda á sama tíma og það nefnir þörfina á að forseti veiti þjóðinni innblástur, tali fyrir virðingu í samfélaginu og sé bæði sanngjarn og staðfastur. Ég hef tekið þetta til mín en það er stór ákvörðun að bjóða sig fram og hún verður ekki tekin í flýti," segir Hrannar í samtali við Kjarnann.
Hrannar er félagsfræðingur, fæddur og uppalinn á Húsavík. Hann var um tíma sjónvarpsfréttamaður fyrir tæpum tveimur áratugum en hefur síðan mest starfað við upplýsinga- og samskiptamál, fyrst hjá ISAL sem á og rekur álverið í Straumsvík og síðar fjarskiptafyrirtækinu Vodafone þar sem hann stýrði einnig mannauðs-, markaðs- og lögfræðimálum. Þá starfaði hann sem verkefnisstjóri í forsætisráðuneytinu þar til í nóvember 2015, þar sem hann sinnti verkefnum fyrir ráðuneytisstjóra, en rekur nú eigið upplýsinga- og samskiptafyrirtæki.
Forsetaframboð Hrannars virðist njóta stuðnings á heimaslóðum hans á Húsavík því í héraðsfréttablaðinu Skarpi, sem kom út í dag, er skorað á Hrannar að taka slaginn. Þar er hann er sagður brúa bil ólíkra skoðana, hafa margþætta reynslu sem sérfræðingur og stjórnandi úr atvinnulífinu auk þess sem hann þekki vel innviði stjórnsýslunnar, án þess þó að vera stjórnmálamaður. Hann sé mælskur, komi vel fyrir og sé huggulegur.
Þá getur blaðið sér til um að Hrannar sé getinn á fyrsta heimili foreldra sinna, en þau bjuggu sín fyrstu hjúskaparár í húsi sem bar heitið Bessastaðir. Nú sé kominn tími til að Hrannar flytji til Bessastaða.