Útvarpsgjaldið lækkar á næsta ári í 16.400 krónur, samkvæmt tillögum meirihluta fjárlaganefndar Alþingis fyrir þriðju og síðustu umræðu fjárlaganna fyrir næsta ár. Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra dró jafnframt frumvarp sitt um að útvarpsgjaldinu yrði haldið óbryettu til baka úr ríkisstjórn, þar sem það hafði verið fast um nokkurt skeið.
Á móti lækkun útvarpsgjaldsins verður hins vega 175 milljóna aukaframlag sett til innlendrar dagskrárgerðar á RÚV. Með því segir Illugi að krónutala framlaga á næsta ári verði sú sama og á þessu ári. „Menn sjá það engu að síður að áfram er rekstrarvandi,“ segir Illugi við Morgunblaðið í dag.
Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri segia að það sé augljóst að nú þurfi RÚV að skerða dagskrá og þjónustu til að tryggja hallalausan rekstur. Hann segir það vonbrigði hvernig málið fór. „Það er ljóst að þessar 175 milljónir koma á móti og bætir það stöðuna nokkuð en öll fyrirtæki á markaði þurfa að taka verðlagsþróun og launahækkanir með í reikninginn.“
Meðal annarra tillagna fyrir lokaumræðu fjárlaga er að settur verði rúmur milljarður króna til Landspítalans. „Við höfum verið mjög uggandi yfir árinu 2016. Það að fá aukið fé minnkar þær áhyggjur. Við fögnum því að okkar óskum sé sýndur skilningur,“ segir Páll Matthíason, forstjóri Landspítala við Morgunblaðið í dag. Féð sé nægilegt til þess að kveða niður mestu áhyggjurnar, bæði hvað varðar brýnustu viðhaldsverkefni og fráflæðisvandann, og það geri spítalanum auðveldara að gegna kjarnahlutverki sínu á skilvirkari hátt. „Það mikilvægasta er síðan það að stefna áfram að uppbyggingu þjóðarsjúkrahússins,“ segir Páll.