Atvinnuþátttaka eykst og atvinnuleysi minnkar með aukinni menntun. Þetta sýna tölur Hagstofu Íslands glögglega, sem fjallað var um í morgun.
Þannig voru 94,2 prósennt þeirra sem höfðu háskólamenntun í aldurshópnum 25–64 ára á vinnumarkaði árið 2014, 90,2 prósent íbúa með framhaldsmenntun og 80,4% þeirra sem höfðu eingöngu lokið grunnmenntun. Atvinnuleysi var 3,6 prósent meðal háskólamenntaðra sama ár, fjögu prósent meðal fólks með menntun á framhaldsskólastigi og 4,7 prósent meðal þeirra sem höfðu lokið grunnmenntun.
Árið 2014 voru háskólamenntaðir 25 til 64 ára íbúar á Íslandi í fyrsta skipti fleiri en íbúar með menntun á framhaldsskólastigi, eða 60.800, en menntaðir á framhaldsskólastigi voru 59.300, af því er segir á vef Hagstofu Íslands.
Háskólamenntaðir 25 til 64 ára voru 37 prósent íbúa á Íslandi, 2.000 fleiri en árið 2013. Þá höfðu 43.900 manns í þessum aldurshópi eingöngu lokið grunnmenntun, þ.e. styttra námi en framhaldsskólastigi, samkvæmt niðurstöðum úr Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Það eru 26,7 prósent íbúa og hefur fækkað um 1.500 manns frá fyrra ári.
Atvinnuleysi mælist um þessar mundir með allra lægsta móti, sé miðað við Evrópulönd. Nýjustu tölur sýna 3,8 prósent atvinnuleysi, en meðaltalið í Evrópu er 10,8 prósent.