Bandalag háskólamanna hefur kært íslenska ríkið til Mannréttindadómstóls Evrópu fyrir hönd átján aðildarfélaga sinna. Kæran lýtur aðallega að lögum sem sett voru á verkföll þessara félaga í sumar, en Alþingi samþykkti lög sem bönnuðu verkföll þeirra í júní.
„Þá mun reyna á það fyrir dómstólnum hvort íslensk stjórnvöld hafi brotið gegn Mannréttindasáttmála Evrópu með inngripi sínu í samningsfrelsi stéttarfélaga,“ segir í fréttatilkynningu frá BHM.
Uppfylla þarf nokkur skilyrði til þess að kæra fyrir Mannréttindadómsstóli Evrópu teljist tæk til efnismeðferðar. „Á næstu mánuðum mun koma fram hvort dómstólinn telur kæruna tæka. Málsmeðferðin er tafsöm og ekki liggur fyrir hvenær BHM fær upplýsingar um það hvort málið fái framgang.“
Forsaga málsins er sú að kjaradeilu aðildarfélaga BHM var vísað til ríkissáttasemjara í lok mars. Haldnir voru 24 fundir sem báru ekki árangur. Þann 13. júní síðastliðinn voru samþykkt lög á Alþingi sem bönnuðu verkföll Félags geislafræðinga, Félags lífeindafræðinga, Ljósmæðrafélagss Íslands, Félags íslenskra náttúrufræðinga, Stéttarfélags lögfræðinga hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, Stéttarfélags háskólamanna á matvæla- og næringasviði, Dýralækningafélags Íslands hjá Matvælastofnun og Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins hjá Fjársýslu ríkisins. Þegar lög voru sett höfðu verkfallsaðgerðir staðið yfir í á þriðja mánuð.
BHM taldi lagasetninguna fela í sér ólögmætt inngrip í starfsemi frjálsra, löglegra félagssamtaka og fór með málið fyrir dómstóla. Um miðjan júlí var íslenska ríkið sýknað af kröfum BHM í héraðsdómi Reykjavíkur og var það niðurstaða dómsins að ríkinu hafi verið heimilt að setja lög á verkfallið. Í ágúst staðfesti svo Hæstiréttur þann dóm.