Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, var í dag dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir umboðssvik í Stím-málimu. Jóhannes Baldursson, sem var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá bankanum var dæmdur í tveggja ára fangelsi og Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, fyrrverandi bankastjóri Saga Capital, var dæmdur í átján mánaða fangelsi. RÚV greinir frá.
Lárus, Jóhannes og Þorvaldur voru ákærðir vegna lánveitinga sem Glitnir veitti Stími til að kaupa hlutafé í bankanum, en hlutabréfakaup Stíms í Glitni og FL Group námu tæpum 25 milljörðum króna. Kaupin voru að stórum hluta fjármögnuð með láni frá Glitni og hlutabréfin sjálf voru eina veðið.
Lárus sætti ákæru í tveimur liðum ákærunnar en þeir Jóhannes og Þorvaldur í þeim þriðja. Allir neituðu sök. Lárus og Jóhannes voru báðir dæmdir fyrir umboðssvik og Þorvaldur fyrir hlutdeild í umboðssvikum.
Lárus var dæmdur til að greiða 14 milljónir í málsvarnarkostnað, Jóhannes 15,5 milljónir og Þorvaldur 10,5 milljónir.