Lögreglan á Íslandi hefur heimildir til þess að leggja hald á fjármuni útlendinga til þess að greiða fyrir kröfu vegna kostnaðar við brottför og gæslu, samkvæmt lögum um útlendinga á Íslandi. Samkvæmt frumvarpi að nýjum útlendingalögum verður þessu ekki breytt og heimilt verður að krefja hælisleitendur um endurgreiðslu á kostnaði.
Þessar heimildir svipa til þeirra sem nú er lagt til að lögreglan í Danmörku fái, til þess að fá kostnað við komu hælisleitenda endurgreiddan frá þeim. Frumvarp þess efnis hefur vakið mikla reiði og umræðu í Danmörku, en gert er ráð fyrir að lögreglan megi leita í farangri útlendinga til að kanna hvort verðmæti finnist þar. Frumvarpið var lagt fram fyrr í desember og gert er ráð fyrir því að það taki gildi sem lög í febrúar næstkomandi. Leita má að verðmætum til að mæta kostnaði en stjórnvöld segja að lögin nái aðeins til afar verðmætra eigna. Eins og fram kemur í umfjöllun mbl.is af málinu hefur verið vísað til eignaupptöku nasista í seinni heimstyrjöldinni í gagnrýni á lögin.
Íslensk útlendingalög gera ráð fyrir því að krefja eigi útlending um endurgreiðslu kostnaðar af réttaraðstoð að hluta til eða að öllu leyti ef hann hefur ráð á því. Jafnframt gera lögin ráð fyrir því að útlendingur eigi að greiða kostnað af brottför sinni og kostnað sem hlýs af því ef lögregla þarf að fylgja viðkomandi einstakling úr landinu. Gera má fjárnám vegna þessarar kröfu og hún getur líka verið grundvöllur frávísunar frá landinu ef útlenidingur kemur aftur til landsins síðar.
Auk þess sem lögreglan hefur heimildir til þess að leggja hald á fjármuni fólks má leggja hald á farseðla sem finnst í fórum útlendings. Lögmaðurinn Árni Helgason bendir á þessa heimild í lögunum á Facebook-síðu sinni, en segir jafnframt að hann viti ekki til þess að þessum ákvæðum hafi verið beitt. Heimildin er hins vegar til staðar.
Þessar heimildir verða áfram til staðar ef frumvarp til nýrra útlendingalaga verður að veruleika, en frumvarpið var samið af þverpólitískri nefnd og skilað inn til innanríkisráðuneytisins fyrir skemmstu. Ekki er fjallað sérstaklega um þessi ákvæði í greinargerðum með frumvarpinu.