81% þeirra sem segjast myndu kjósa Framsóknarflokkinn eru ánægðir eða mjög ánægðir með störf Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Þetta kemur fram í könnun MMR um ánægju með störf forsetans. Framsóknarmenn eru langánægðastir allra með störf forsetans.
66% þeirra sem segjast kjósa Sjálfstæðisflokkinn eru frekar eða mjög ánægðir með störf forsetans. 41% Pírata eru ánægðir með störf hans, 35% þeirra sem kjósa Bjarta framtíð og 25% þeirra sem myndu kjósa Vinstri græna. Minnst er ánægjan með störf Ólafs Ragnars meðal þeirra sem myndu kjósa Samfylkinguna ef gengið væri til kosninga í dag.
Það er líka mikill munur á stuðningi við forsetann eftir menntunarstigi. Þannig eru 55% þeirra sem hafa lokið grunnskólaprófi ánægðir með forsetann og 66% þeirra sem hafa lokið starfsnámi. Ánægjan með hann er 46% hjá þeim sem hafa lokið bóklegu framhaldsskólanámi en 55% hjá þeim sem hafa lokið verklegu framhaldsskólanámi. 41% þeirra sem hafa próf úr sérskólum eða við háskólastig eru ánægðir með forsetann en aðeins 37% þeirra sem hafa háskólapróf.
Kjarninn greindi frá könnuninni fyrir jól, en þá voru aðeins komnar inn grunntölurnar úr könnuninni en ekki greining MMR.
Innan við helmingur Íslendinga segist ánægður með störf Ólafs Ragnars. Á þessu kjörtímabili hefur ánægja með störf forsetans aldrei mælst lægri en nú, en einu sinni áður hefur hún mælst jafnlítil. 47,8% aðspurðra segjast ánægðir með störf forsetans, sem er sama hlutfall og í janúar á þessu ári. Könnuninni lauk þann 18. desember. 25,2 prósent eru óánægðir með störf forsetans samkvæmt könnuninni og 26,9 prósent segjast hvorki ánægðir né óánægðir með störf hans. Í síðustu könnun á undan þessari, sem lauk 7. desember, sögðust 54,8 prósent vera ánægð með störf forsetans.
MMR kannar reglulega viðhorf til starfa forsetans. Mest hefur ánægjan með forsetann farið upp í 63,6 prósent, í febrúar 2013, á þessu kjörtímabili. Mest hefur óánægjan farið í 30,1 prósent á þessu kjörtímabili, en það var í júlí 2013. Óánægjan var minnst skömmu áður, eða í maí síðastliðnum, 17,9 prósent.