Litlar breytingar hafa orðið á fylgi stjórnmálaflokka síðan í vor, samkvæmt nýjasta þjóðarpúlsi Gallup, sem RÚV segir frá í dag.
Stuðningur við ríkisstjórnina minnkar um þrjú prósentustig, mælist 36 prósent, en er svipaður og hefur verið frá því um mitt ár. Þjóðarpúlsinn var gerður milli 26. og 28. desember og í ljós kemur að fylgið stendur nánast í stað milli mánaða, og hefur verið stöðugt nánast frá því í apríl.
Píratar eru með rúmlega 33% og Sjálfstæðisflokkurinn rúmlega 25%. Framsóknarflokkurinn er með 12%, Samfylking og VG rúmlega 10% og Björt framtíð rúmlega 4%.
Gallup hefur einnig tekið saman meðalfylgi flokkanna á árinu og mestar breytingar hafa orðið á fylgi Bjartrar framtíðar og Pírata. Meðalfylgið hjá Bjartri framtíð er rétt rúmlega 7% og Píratar eru með meðalfylgi rétt undir 30%. Fylgi Bjartrar framtíðar er hins vegar þremur prósentustigum minna nú en meðalfylgið, og fylgi Pírata nú er þremur prósentustigum hærra en meðalfylgið. Samfylkingin er rúmum tveimur prósentustigum fyrir neðan sitt meðalfylgi, sem er 12,5%.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og VG er álíka og meðalfylgi þeirra á árinu. Meðalfylgi Sjálfstæðisflokksins er 24,5%, Framsóknarflokksins er 10,9% og hjá VG 10,5%.