Sunna Valgerðardóttir hefur verið ráðin til Kjarnans. Hún hefur störf í dag og mun sinna fréttavinnslu og fréttaskýringarskrifum. Sunna er þrautreynd í blaða- og fréttamennsku. Hún starfaði hjá Fréttablaðinu frá árinu 2009 til ársins 2013 og hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins (RÚV) á árunum 2013 til 2015. Undanfarin misseri hefur hún starfað að samskiptamálum hjá Orkuveitu Reykjavíkur.
Sunna hlaut Blaðamannaverðlaun Íslands fyrir umfjöllun ársins 2012. Þar fjallaði hún með áhrifamiklum og heildstæðum hætti um stöðu geðsjúkra í röð fréttaskýringa sem birtust í Fréttablaðinu. Sunna er með diplómagráðu í margmiðlun og langt komin með BA-gráðu í nútíma- og fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri.
Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, segir mikinn feng í ráðningunni. „Sunna er mjög öflugur blaðamaður og það er okkur mikið fagnaðarefni að fá hana til liðs við okkur. Hún mun auka breidd Kjarnans með sérþekkingu sinni.“