Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir brýnt að taka á regluverkinu í kring um heimagistingar á landinu. Hún hefur kynnt frumvarp fyrir ríkisstjórninni sem á að taka á svartri útleigu íbúða sem snýr að heimagistingu á vegum einkaaðila, oftar en ekki kennt við alþjóðlegu vefsíðuna Airbnb. Einungis 250 af 1.900 Airbnb gistiplássa í Reykjavík eru með tilskilin leyfi.
Ragnheiður Elín segir tvö aðalsjónarmið liggja að baki framlagningu frumvarpsins.
„Annars vegar er það einföldun regluverks sem hefur verið forgangsmál hjá þessari ríkisstjórn. Hinsvegar sú staðreynd að þessi tegund gistingar, það er útleiga einstaklinga á heimilum sínum, hefur aukist allverulega á umliðnum árum,” segir hún. „Regluverkið um heimagistingu hefur verið flókið og fráhrindandi og því hefur þessi tegund gistingar verið að stórum hluta til óskráð og án leyfis með tilheyrandi undanskotum frá skatti.”
Frumvarpinu sé ætla að koma til móts við þetta og einfalda fólki til að muna að standa löglega að málum.
87% tekna af heimagistingu svartar
Í nýlegri skýrslu sem Háskólinn á Bifröst vann fyrir atvinnuvegaráðuneytið, og Kjarninn greindi frá, eru um 3.400 íbúðir skráðar hjá Airbnb á landinu öllu, þar af 1.900 á höfuðborgarsvæðinu. Hinsvegar eru einungis 13 prósent íbúðanna skráðar og með leyfi.
Ragnheiður bendir á að það séu því umtalsverðar fjárhæðir sem ríkissjóður verði af miðað við að 87 prósent tekna af heimagistingu séu svartar.
„Með þessu erum við einnig að einfalda eftirlit fyrir skattayfirvöld til muna því allar íbúðir í útleigu munu fá númer sem þeim er skylt að láta koma fram við markaðssetningu á eigninni,“ segir hún.
Trúir að lögin hafi fælandi áhrif
Ragnheiður Elín segist bjartsýn á að fólk framfylgi lögunum.
„Ég hef nú þá trú almennt að fólk vilji vera heiðarlegt og leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Það hefur komið skýrt fram að það hafi fælandi áhrif fyrir þá sem ætla sér að ná í aukatekjur með því að leigja út heimili sitt tímabundið, að þurfa að fara gegnum sama leyfisferli og gistiheimili og hótel sem eru í rekstri allt árið,” segir hún, „Ég á von á að þessari einföldun verði vel tekið og að hlutfall heimagistingar með leyfi muni hækka í kjölfarið.“
Nýtt frumvarp um ársreikninga
Ríkisstjórnin hefur sett einföldun regluverks í forgang allt kjörtímabilið, að mati Ragnheiðar Elínar. Hún segir að síðan árið 2014 hafi verið unnið markvisst eftir skýrslu sem var unnin ásamt Ferðamálastofu um einföldun á regluverki fyrir ferðaþjónustuna.
„Við höfum nú þegar endurskoðað lög um bílaleigur og munum áfram vinna að innleiðingu þeirra verkefna, til að mynda er verið er að vinna að einni gátt fyrir leyfisveitingar,” segir hún. Á föstudag lagði ráðherra frumvarp fyrir ríkisstjórn um breytingar á ársreikningalögum.
„Lögin munu meðal annars einfalda yfir 80 prósent íslenskra fyrirtækja, þar með talið í ferðaþjónustunni, að skila ársreikningum samhliða skattframtali, svo fátt eitt sé nefnt,“ segir Ragnheiður Elín.