35 sýrlenskir flóttamenn munu koma til Íslands seinni partinn á morgun til að setjast hér að. Fólkið eru kvótaflóttamenn sem hafa dvalið í flóttamannabúðum í Líbanon undanfarin ár. Þau koma með flugi frá Beirút, en millilenda í París. Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra mun taka á móti hópnum í Leifsstöð klukkan 16.30 á morgun ásamt þeim aðilum sem helst tengjast málefnum flóttafólks hér á landi.
Hópurinn samanstendur af sex fjölskyldum, 13 fullorðnum og 22 börnum. Fjórar fjölskyldur koma til með að setjast að á Akureyri og tvær í Kópavogi. Ein fjölskylda til viðbótar er væntanleg til landsins síðar, en barnshafandi kona í þeirri fjölskyldu reyndist ekki fær um að ferðast til landsins nú.
Upphaflega var gert ráð fyrir því að 55 flóttamenn kæmu og settust að á Akureyri, í Kópavogi og í Hafnarfirði. Þrjár fjölskyldur, sem höfðu áður lýst yfir áhuga á að setjast að á Íslandi, sáu sér ekki fært að koma. Nú vinna íslensk stjórnvöld að því að samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna að undirbúa komu annarra flóttamanna í þeirra stað. Velferðarráðuneytið segir að stefnt sé að því að sá hópur komi til landsins innan nokkurra vikna.
Sautján Sýrlendingum veitt hæli
Útlendingastofnun greindi frá því í dag að í fyrra sótti metfjöldi um hæli eða aðra vernd á Íslandi. 82 einstaklingum var veitt slík vernd, og Sýrlendingar voru þar fjölmennastir, en 17 Sýrlendingum var veitt vernd hér á landi í fyrra. Átta Rússar fengu vernd, sex Íranir, sex Nígeríumenn og sex Úkraínumenn. Allt í allt fékk fólk af 26 þjóðernum vernd á Íslandi í fyrra.
Alls sóttu 354 einstaklingar um vernd hér á landi, þar af 29 Sýrlendingar. Niðurstaða fékkst í 323 málum sem Útlendingastofnun hafði á sínu borði. Eins og fyrr segir fengu 17 Sýrlendingar vernd.
82 umsóknir af þessum 354 voru ekki teknar til efnislegrar meðferðar vegna Dyflinnarreglugerðarinnar, það er að umsækjendur höfðu ýmist fengið dvalarleyfi í öðru landi eða mál þeirra voru til meðferðar í öðru ríki.
Fjölgun umsókna um vernd er í takt við það sem gerðist í nágrannalöndum okkar, þar sem fjölgun umsókna hefur víða margfaldast.