Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra svarar því ekki hvort hann styðji það að hlutur ríkisins í Landsbankanum verði seldur á yfirstandandi ári eða ekki eða hvort honum þyki það skynsamleg hugmynd. Þetta kom fram í svari hans við fyrirspurn Helga Hjörvar, þingmanns Samfylkingarinnar, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
Helgi spurði Sigmund hvers vegna lægi „svona óskaplega á að selja hlut ríkisins í Landsbankanum.“ Það væri óútskýrt en margt benti til þess að ríkið græddi á því að eiga hlutinn áfram frekar en að selja hann.
„Stutta svarið er: það liggur ekkert á að selja bankann fyrr en menn eru ásáttir um að það sé æskilegt fyrir eigandann,“ sagði Sigmundur Davíð. Hann lagði hins vegar áherslu á það að það væri ekki hann eða þingið sem myndi taka ákvörðun um sölu á Landsbankanum, heldur kæmi það í hlut Bankasýslu ríkisins. „Ég efast ekki um að Bankasýslan muni meta það hvenær og með hvaða hætti æskilegt kann að vera að selja hlut í bankanum.“
Helgi vitnaði einnig til orða Frosta Sigurjónssonar, þingmanns Framsóknarflokksins og formanns efnahags- og viðskiptanefndar þingsins, um að bankinn eigi að vera samfélagsbanki og ekki ætti að selja hlut ríkisins í honum, og spurði hvort forsætisráðherra væri á sömu skoðun og Frosti. Því svaraði Sigmundur Davíð ekki, en lagði áfram áherslu á það að hann myndi ekki koma til með að selja hlutinn í bankanum, heldur Bankasýslan.
Samfélagsbanki samþykktur af flokksþingi Framsóknar
Samkvæmt samþykkt flokksþings Framsóknarflokksins frá því í apríl á bankinn að vera samfélagsbanki. „Landsbankinn verði samfélagsbanki í eigu þjóðarinnar með það markmiði að þjóna samfélaginu í stað þess að hámarka hagnað. Til að bregðast við fákeppni á bankamarkaði er nauðsynlegt að Landsbankinn hafi þann tilgang að bjóða góða þjónustu á bestu kjörum til að efla samkeppni í bankaþjónustu á landsvísu. Landsbankinn verði bakhjarl sparisjóðakerfisins.“
Sigmundur Davíð hefur áður sagt að vert sé að skoða hugmyndir Frosta.
Bankasýslan telur skilyrði til staðar til að hefja sölu
Það er hins vegar þannig að stjórnvöld taka ákvörðun um hvenær hefja eigi söluferlið, að því er fram kemur í tilkynningu frá Bankasýslunni frá því fyrr í þessum mánuði. Þá sendi stofnunin frá sér stöðuskýrslu um söluferlið þann 8. janúar síðastliðinn, þar sem fram kom að hún telur að þau skilyrði sem stofnunin setur fyrir því að hefja söluferli á eignarhlut ríkisins í Landsbankanum séu til staðar. Það sé ákvörðun Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra að hefja söluferlið. Í kjölfar stöðuskýrslunnar ætlar Bankasýslan að óska eftir yfirlýsingum um áhuga af hálfu aðila sem vilja starfa með stofnuninni sem ráðgjafar í fyrirhuguðu söluferli. Bankasýslan býst við því að hægt verði að ljúka sölu á allt að 28,2 prósent hlut í Landsbankanum á síðari hluta ársins ef ákvörðun verður tekin í vor.
Heimild til þess að selja hlut af hluta ríkisins í Landsbankanum hefur verið í lögum frá árinu 2011. Í fjárlagafrumvarpi ársins 2016 kemur fram að ríkið geri ráð fyrir því að um 71 milljarður króna fáist fyrir 30 prósenta hlut og að ágóðinn verði greiddur inn á skuldabréf sem voru gefin út til að fjármagna fallnar fjármálastofnanir árið 2008.